UFC 212 fór fram um helgina þar sem Max Holloway sigraði Jose Aldo í frábærum bardaga. Hér eru Mánudagshugleiðingar eftir helgina.
Max Holloway er búinn að vinna 11 bardaga í röð. Það er alveg fáranlegt! Sigurinn á Jose Aldo var hans besti til þessa og er hann núna óumdeilanlegur fjaðurvigtarmeistari UFC.
Jose Aldo byrjaði bardagann vel og náði góðum höggum í Holloway. Í 2. lotu fór Holloway hins vegar að taka yfir bardagann og finna tímasetninguna sína. Fléttan sem felldi Aldo var ótrúlega snyrtileg og vel tímasett. Hann var alveg miskunnarlaus í gólfinu þegar hann lét höggin dynja á Aldo sem reyndi að verjast og sleppa án árangurs.
Frankie Edgar er líklega næsti andstæðingur Max Holloway enda einn af fáum sem Holloway vann ekki á leið sinni á toppinn. Það er kannski það jákvæða fyrir Holloway að vinna svona marga bardaga áður en hann fékk titilbardaga – hann er eiginlega búinn að vinna alla þá sem eru við toppinn nema Edgar.
Cub Swanson reyndi að færa rök fyrir því að hann ætti að fá næsta titilbardaga en ekki Frankie Edgar. Swanson sagði að Edgar hafi nú þegar fengið svo marga titilbardaga án þess að vinna á meðan hann sjálfur hefur aldrei fengið titilbardaga í UFC. Það eru svo sem ágætis rök en það breytir því ekki að hann tapaði fyrir Holloway 2015 og sá bardagi var nokkuð einhliða. Frankie Edgar hefur unnið tvo bardaga í röð síðan hann tapaði fyrir Jose Aldo í fyrra og væri gaman að sjá hann gegn Holloway.
Tími Jose Aldo sem sá besti í fjaðurvigtinni er sennilega liðinn. Hann er bara þrítugur en það eru margar mílur á tankinum eins og sagt er. Hann hefur farið í nokkur stríð á ferlinum og svo má ekki gleyma því að Nova Uniao (þar sem Aldo hefur alla tíð verið) hefur verið þekkt fyrir harðar æfingar og hálfgerð stríð á æfingum þar.
Hann hefur ekkert tjáð sig enn eftir tapið og óvíst hver hans næstu skref verða. Það gæti verið gaman að sjá hann fara upp í léttvigt. Nýtt upphaf í nýjum flokki þar sem hann gæti mætt nýjum andstæðingum. Það er eiginlega ekkert eftir fyrir hann í fjaðurvigtinni. Hann gæti reynt að vinna sig aftur upp í titilbardaga gegn Max Holloway en til þess þyrfti hann að klára að minnsta kost tvo bardaga mjög sannfærandi. Hver væri ekki til í að sjá Aldo, með eina bestu felluvörn allra tíma, takast á við Khabib Nurmagomedov?
Claudia Gadelha nældi sér í sinn fjórða sigur í UFC þegar hún sigraði Karolinu Kowalkiewicz. Gadelha kláraði hana með hengingu í 1. lotu og var þetta í fyrsta sinn sem hún klárar bardaga í UFC. Gadelha festi sig enn betur í sessi sem sú næst besta í strávigtinni á eftir Joanna Jedrzejczyk með þessum sigri. Hún er komin í svipaða stöðu og t.d. Joseph Benavidez í fluguvigtinni þar sem hún vinnur alla nema meistarann og hefur þegar tapað tvívegis fyrir meistaranum.
Gadelha var líka skemmtilega hreinskilin á blaðamannafundinum eftir bardagann. Hún gerði sér grein fyrir því að það væri lítil eftirspurn eftir þriðja bardaga hennar og Jedrzejczyk þar sem hún hefur þegar tapað tvisvar fyrir henni. Það kom á óvart enda hefðu flestir nýtt tækifærið til að skora á meistarann. Gadelha vill að aðdáendur, stjórnendur UFC og bara allir vilji sjá hana gegn Jedrzejczyk aftur. Að hennar mati er staðan ekki þannig í dag.
Vitor Belfort nældi sér í ágætis sigur á heimavelli. Hann sigraði Nate Marquardt eftir dómaraákvörðun en ekki voru allir sammála niðurstöðu dómaranna. Hann segist ekkert vera á leiðinni að hætta og segist eiga fimm bardaga eftir. Það er kannski full mikið en ef hann ætlar að halda áfram væri sennilega best að hann myndi berjast við menn eins og Nate Marquardt – menn sem eru komnir af léttasta skeiði eins og Belfort.
Paulo Borrachinha náði enn einu rothögginu þegar hann kláraði Oluwale Bamgbose í 2. lotu og Yancy Meideiros var mjög flottur gegn Erick Silva. Marlon Moraes náði ekki að koma inn í UFC með hvelli eins og vonast var eftir. Hann tapaði fyrir Raphael Assuncao og er enn einn meistarinn úr öðrum bardagasamtökum sem tapar í frumraun sinni í UFC. Hector Lombard, Gilbert Melendez og Eddie Alvarez töpuðu allir sínum fyrsta bardaga í UFC.
Næsta UFC fer fram á laugardaginn í Ástralíu þegar þeir Mark Hunt og Derrick Lewis eigast við í aðalbardaga kvöldsins.