UFC 247 fór fram á laugardaginn í Houston, Texas. Jon Jones sigraði Dominick Reyes í frábærum bardaga en deilt er um niðurstöðu bardagans.
Jon Jones sigraði Dominick Reyes eftir einróma dómaraákvörðun. Bardaginn var jafn og spennandi frá upphafi til enda en dómararnir þrír töldu að Jones hefði unnið. Það má vel færa rök fyrir því að Reyes hefði átt að vinna en þetta var mjög jafnt og hefði getað dottið beggja vegna. Allt tal um rán eru ýkjur.
Í annað sinn í röð er Jon Jones að vinna fremur ósannfærandi. Með smá heppni (eða óheppni fyrir Jones) væri hann 0-2 í síðustu tveimur bardögum. Jones hefur eiginlega verið mannlegur í síðustu tveimur bardögum.
Frammistaðan gegn Thiago Santos var ekkert spes en það sama er ekki hægt að segja um frammistöðuna gegn Dominick Reyes. Jones var mjög góður en Dominick Reyes bara betri en flestir gerðu ráð fyrir.
Jones er orðinn 32 ára gamall, hefur barist í UFC á hæsta getustigi í tæp 12 ár og er kannski ekki lengur upp á sitt allra besta. Hann hefur átt magnaðan feril og verið á toppnum síðan hann var 23 ára. Það er sjaldséð og það er ástæða fyrir því hvers vegna svo fáum tekst að vera á toppnum svona lengi. Jones er búinn að vera með skotmark á bakinu í tæpan áratug og tylft manna reynt að sigra hann en enn er hann með beltið. Það er pressa sem fáir standast en það kemur af því að Jones tapar og það lítur út fyrir að það sé að styttast í tapið. Hann virkar ekki eins ósigrandi og hann var fyrir ári síðan.
Embed from Getty ImagesReyes gerði allt sem hann gat til að sigra Jones. Hann gerði svipað og Alexander Gustafsson gerði gegn honum á UFC 165 – hann hjólaði í hann og var óttalaus frá fyrstu sekúndu. Reyes sýndi og sannaði að hann á heima nálægt toppnum og á hann skilið að fá annað tækifæri gegn Jones. Það verða örugglega fleiri sem tippa á Reyes næst ef þeir mætast aftur en Jones má eiga það að hann hefur alltaf verið betri þegar hann mætir andstæðingum í annað sinn (Cormier og Gustafsson).
Allt tal um skref Jones upp í þungavigt verður sennilega sett á ís því flestir virðast vilja sjá Jones og Reyes aftur. Þetta var það jafnt og það spennandi að það verður bara að gerast. Yfirleitt hef ég ekki gaman af því að sjá menn mætast strax aftur en núna er ég spenntur (svipa og þegar Lyoto Machida og Shogun Rua mættust tvisvar í röð).
Mikið hefur verið deilt um dómaraákvörðunina. Flestir eru sammála um að Reyes hafi tekið 1. lotuna og Jones 4. og 5. lotuna. Önnur og þriðja lota voru mjög jafnar og sérstaklega þriðja lota. Þetta var samt allt svo jafnt að við bara verðum að sjá þetta aftur! Jones stjórnaði pressunni í 2. og 3. lotu en Reyes hitti fleiri höggum. Samkvæmt reglunum hefur „Octagon control“ minnsta að segja þegar kemur að sigri í lotu.
„Effective Striking/Grappling shall be considered the first priority of round assessments. Effective Aggressiveness is a ‘Plan B’ and should not be considered unless the judge does not see ANY advantagein the Effective Striking/Grappling realm. Cage/Ring Control (‘Plan C’) should only be needed when ALLother criteria are 100% even for both competitors“
Embed from Getty ImagesYfirburðir Valentinu Shevchenko halda áfram. Shevchenko gjörsamlega valtaði yfir Katlyn Chookagian og var sennileg ekki með skrámu á sér eftir bardagann. Þetta var nokkurn veginn vitað fyrirfram en fór 100% eftir bókinni.
Shevchenko sagði að það væru „fullt af stelpum fyrir sig“ í fluguvigtinni. Ég er ekki alveg á sama máli og held að Shevchenko hafi bara verið að reyna að vera indæl. Það er engin núna sem kemst nálægt Shevchenko í getu í fluguvigtinni.
Þessir ofurbardagar eru orðnir þreyttir en það er ekkert annað spennandi í boði fyrir Valentinu. Seinni bardagi hennar gegn Amanda Nunes var samt mjög leiðinlegur og Nunes þegar unnið hana tvisvar svo ég veit ekki hvort það sé endilega málið fyrir Shevchenko. Kannski Wheili Zhang en hún hefur nóg annað að gera í strávigtinni.
Næsta laugardag er fínasta bardagakvöld í Rio Rancho í Nýju-Mexíkó þar sem Corey Anderson mætir Jan Blachowicz í aðalbardaga kvöldsins.