spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 257

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 257

Embed from Getty Images

UFC 257 fór fram um helgina í Abu Dhabi. Dustin Poirier kláraði Conor McGregor með rothöggi í 2. lotu en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Dustin Poirier tókst að hefna fyrir sitt versta tap á ferlinum. Dustin var frábær á laugardaginn og átti frábæra frammistöðu á sunnudagsmorgni í Abu Dhabi.

Það gekk allt upp hjá Dustin. Planið hans var að sparka í Conor, blanda nokkrum fellum inn og nota boxið sitt. Það gekk vel eftir og sá maður sjálfstraustið hjá Dustin vaxa með hverri mínútu sem leið.

Conor byrjaði ágætlega og náði hann að lenda góðum höggum í 1. lotu. Dustin stóð öll höggin af sér og gat greinilega tekið við þeim. Að mínu mati fékk Dustin trúna á að hann gæti boxað við Conor eftir að hafa étið góð högg frá Conor og beitt gagnárásum án þess að hrynja niður strax í 1. lotu. Það held ég hafi gefið Dustin mikinn kraft.

Embed from Getty Images

Besta vopn bardagans voru kálfaspörkin hjá Dustin. Kálfaspörkin vöktu fyrst athygli í MMA heiminum þegar Ben Henderson notaði þau á meðan hann var léttvigtarmeistari frá 2012-2013. Þau komu síðan almennilega í tísku fyrir um 2-3 árum síðan og sjást reglulega í dag.

Sparkið lendir á svo litlu svæði á kálfanum og geta bardagamenn tekið mun færri spörk þar heldur en t.d. í lærið. Maður sér það reglulega að bardagamenn finna vel til eftir 2-3 svona spörk og fara fljótlega að haltra um. Dustin Poirier upplifði þetta sjálfur þegar hann mætti Jim Miller árið 2017 en Miller var duglegur að beita kálfaspörkunum þá.

Conor var með fá svör við kálfaspörkunum en eftir nokkur spörk frá Dustin varð Conor strax hægari og allar hreyfingar mun erfiðari. Hann var stífari, hægari og gat ekki sett þyngd á fótinn til að koma með sín bestu högg. Fóturinn var dauður strax í 1. lotu.

Þetta var mjög snjallt hjá Dustin en fáir hafa reynt að sparka mikið í fætur Conor. Eddie Alvarez gerði eitthvað af því en það taldi lítið. Conor gekk illa að „checka“ spörkin og var hvert einasta spark hjá Dustin að hitta í kjöt í stað þess að hitta í bein.

Það er skrítið að Conor hafi aldrei upplifað þessi spörk áður þar sem þau hafa verið í tísku núna í nokkur ár. Það sýnir kannski hve lítið hann er búinn að vera í leiknum á síðustu árum. Dustin var snemma búinn að fatta tímasetninguna hjá Conor og gerði bara ótrúlega vel gegn Conor.

Embed from Getty Images

Persónulega fannst mér Conor alls ekki líta illa út til að byrja með en maður hefur séð betra frá honum. Mörg högg voru að missa marks, hann var ekki alveg eins hraður og höggin ekki eins nákvæm. Kannski var hann bara ryðgaður eftir fáa bardaga á síðustu árum en kannski eru hans bestu ár bara búin. Hann er vissulega bara 32 ára gamall og ætti að vera toppa núna sem bardagamaður. En það er vitað mál að Conor hefur ekki beint verið að lifa eins og íþróttamaður á síðustu árum og það gæti tekið sinn toll.

Mér fannst Poirier sýna muninn á manni sem er búinn að berjast níu bardaga á síðustu fjórum árum og lifir eins og bardagamaður og manni sem hefur barist þrjá MMA bardaga á síðustu fjórum árum og berst þegar honum hentar. Á meðan Poirier hefur verið að undirbúa sig fyrir bardaga, æfa eins og brjálæðingur, eyða tíma á dýnunum, taka framförum, safna í reynslubankann og klífa upp stigann hefur Conor meira og minna verið fjarverandi.

Conor segist ekki vera hættur og vill berjast aftur fljótlega. Hann vantar ekki pening, berst því honum langar það og vill skilja eftir sig betri arfleifð. Ef hann ætlar ekki að bæta of mörgum töpum á ferilskrána er kominn tími á að hann mæti aftur til starfa af alvöru. Eftir frammistöðuna um helgina finnst mér hann ekki vera á leið aftur í beltið. Mér finnst hann ekki eiga séns í Dustin Poirier, Justin Gaethje og Michael Chandler – hvað þá Khabib!

Hann getur ennþá unnið fullt af bardagamönnum í léttvigt UFC en ég er ekki sannfærður um að hann sé meistaraefni í dag. Stór hluti af þessu er auðvitað líka andlegt og ég er bara ekki sannfærður um að hann sé með drifkraftinn í dag sem þarf til að fara í gegnum erfiðu augnablikin í bardaga. Kannski er maður aðeins of bráður að afskrifa hann sem meistaraefni en ég vona að hann geti sýnt betur en hann gerði um helgina.

Dustin Poirier er sennilega besti léttvigtarmaður heims í dag þar sem Khabib er hættur. Það er eins gott að Dustin verði í næsta titilbardagi UFC í léttvigtinni. Hver það verður gegn honum er síðan önnur spurning.

Embed from Getty Images

Michael Chandler átti frábæra frumraun þegar hann rotaði Dan Hooker í 1. lotu. Þetta hefði varla getað verið betri frumraun. Rothögg í 1. lotu á stóru bardagakvöldi og þrumuræða í kjölfarið.

Við höfum séð marga koma frá öðrum samtökum valda vonbrigðum eða byrja illa: Eddie Alvarez byrjaði á tapi áður en hann reif sig upp, Marlon Moraes byrjaði á tapi, Gilbert Melendez olli vonbrigðum eftir að hafa komið seint í UFC og það sama má segja um Ben Askren. Það er alls ekki sjálfgefið að góðir bardagamenn úr öðrum samtökum byrji vel en Chandler gerði það svo sannarlega um helgina.

Chandler vill fá titilbardaga og væri ég alveg til í að sjá hann mæta Dustin Poirier. Ég myndi samt mest vilja sjá eftirfarandi bardaga í léttvigtinni:

-Dustin Poirier gegn Charles Oliveira um léttvigtartitilinn
-Michael Chandler gegn Justin Gaethje
-Conor McGregor gegn Tony Ferguson eða Rafael dos Anjos

Það eiginlega skiptir ekki máli hvernig UFC raðar þessum efstu gæjum gegn hvor öðrum – þetta verður alltaf einhver veisla! Svo er Nate Diaz þarna á kantinum og gæti fengið bardaga við hvern sem er.

Fyrsta stóra bardagakvöld ársins stóð undir væntingum en næsta kvöld UFC fer fram þann 6. febrúar þar sem Alistair Overeem mætir Alexander Volkov.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular