spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night 82: Hendricks vs. Thompson

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night 82: Hendricks vs. Thompson

Nú um helgina fór fram UFC bardagakvöld í Las Vegas. Lítum á það helsta sem stóð upp úr.

Fyrir bardagakvöldið var smá óánægja í loftinu enda átti aðalbardagi kvöldsins að vera titilbardagi í þungavigt. Þess í stað var góðum bardaga í veltivigt þrýst upp í efsta sæti og kvöldinu breytt úr „pay per view“ í bardagakvöld á Fox Sports 1.

Sjálfur Johny Hendricks átti að berjast við karatestrákinn Stephen Thompson sem hafði sigrað fimm bardaga í röð eftir tap á móti Matt Brown á stigum árið 2012. Hann hafði meðal annars unnið Patrick Coté, Robert Whitaker og Jake Ellenberger en átti nú hann að berjast við ‘Big Rigg’ í fimm lotur.

Hendricks er einn sterkasti glímumaðurinn í veltivigt. Hann hefur farið fimm lotur á móti Georges St. Pierre og Robbie Lawler í tvígang og færa mætti rök fyrir því að hann hefði unnið alla þá bardaga. Hann er auk þess rotari sem hafði aldrei sjálfur verið rotaður í 20 viðureignum. Ofan á allt saman virtist Hendricks í frábæru formi andlega og líkamlega. Allir vissu að Thompson var góður en ekki margir spáðu honum sigri.

Bardaginn var hins vegar aftaka sem minnti á sigur Holly Holm á Rondu Rousey í nóvember síðastliðnum. Hendricks reyndi snemma fellu en mistókst og virtist hálf ráðþrota í kjölfarið er Thompson kom sér hæglega undan höggum með frábærri fótavinnu. Við tók röð sparka og högga sem ýmust lentu beint í mark eða á framhandleggjum Hendricks. Eftir aðeins rétt rúmar tvær mínútur virtist Thompson vera með sigurinn í hendi sér og mínútu síðar var bardaginn búinn. Sjokkið var ekki endilega að Thompson skyldi sigra heldur hversu einhliða bardaginn var. Samkvæmt Fight Metric hitti Thompson 24 af 46 höggum en Hendricks aðeins sjö af 16. Það telst varla bardagi.

wonderboy

Sigur Thompson hleypir fersku lofti í veltivigt og bætir enn á þá ringulreið sem ríkir hvað varðar titilbardaga. Til upprifjunar þá var búið að lofa Tyron Woodley titilbardaga í október eftir að Johny Hendricks náði ekki vigt og gat ekki barist.

Á þeim tíma var Carlos Condit kominn með titilbardaga gegn Robbie Lawler og tapaði naumlega á stigum. Margir vilja sjá þann bardaga aftur en það verður þó að teljast betri kostur að sjá nýjan og ferskan bardaga í staðinn fyrir enn eina endursýninguna.

Demian Maia mun berjast við Matt Brown í maí og Rory MacDonald er ekki langt undan. Stephen Thompson er nú kominn á bólakaf í þennan hóp þeirra bestu og gæti hæglega skotist fremst í röðina nú með sex sigra í röð og þann síðasta gegn fyrrum meistara. Hver væri ekki til í að sjá Robbie Lawler gegn ‘Wonderboy’?

Eitt og annað gerðist þetta kvöld sem er allt í lagi að nefna. Joseph Benavidez hélt áfram sigurgöngu sinni gegn öllum sem ekki heita Demetrious Johnson og Dominick Cruz. Roy Nelson vann frekar leiðinlegan bardaga á móti Jared Rosholt. Ovince Saint Preux haltraði sig í gegnum bardaga gegn Rafael ‘Feijao’ Cavalcante og sigraði þrátt fyrir slæman ökkla.

Mike Pyle minnti á sig, orðinn 40 gamall, með sigri á Sean Spencer sem á sennilega von á uppsagnarbréfi í póstinum. Nú er hann aftur orðinn mögulegur andstæðingur fyrir Gunnar Nelson. Josh Burkman hélt ferlinum lifandi með naumum sigri á K.J. Noons. Derrick Lewis afgreiddi nýliða í þungavigt með litlum vandræðum og Justin Scoggins vakti athygli með góðum sigri á Ray Borg.

Það sem bandaríska pressan virtist hafa mestan áhuga á, fyrir utan sigur Thompson, var Mickey Gall. Hver er það gæti einhver spurt? Mickey Gall er náungi sem Dana White réði eftir að hafa séð hann berjast sinn fyrsta UFC bardaga í þáttunum sínum Lookin’ For a Fight sem sjá má hér.

Gall fékk á laugadagskvöldið tækifæri til að sigra bardagamann með enga MMA reynslu og vinna sér þar með inn tækifæri til að berjast við WWE stjörnuna CM Punk. Það má deila um hvort að svona bardagar, sem hafa lítið með keppni að gera og eru meira fyrir skemmtanagildið, eigi á annað borð heima í UFC. Á meðan um eitt og eitt tilvik er að ræða og bardagarnir vekja athygli á íþróttinni er sennilega ekki yfir miklu að kvarta.

Næsta UFC bardagakvöld fer fram þann 21. febrúar í Pittsburgh þar sem Donald ‘Cowboy’ Cerrone mætir Alex ‘Cowboy’ Oliveira.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular