spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Barboza vs. Gaethje

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Barboza vs. Gaethje

UFC var með baragakvöld um helgina í Philadelphiu. Í aðalbardaga kvöldsins mættust þeir Justin Gaethje og Edson Barboza en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Þó þetta heiti Mánudagshugleiðingar langar mig eiginlega frekar að hafa þetta bara Justin Gaethje hugleiðingar. Justin Gaethje er svo geggjaður bardagamaður! Maður er með sturlaðar og sennilega óraunhæfar væntingar til hans en alltaf nær hann að standast væntingarnar. Hvort sem hann vinnur eða tapar er alltaf gaman að sjá hann berjast.

Gaethje er bara 3-2 í UFC en í þessum fimm bardögum hefur hann fjórum sinnum fengið bónus fyrir besta bardaga kvöldsins og tvisvar fyrir frammistöðu kvöldsins. Sex bónusar í fimm bardögum – hreint ekki svo slæmt.

Á laugardaginn rotaði hann Edson Barboza í 1. lotu og er þetta hans annað rothögg í röð í 1. lotu. Hann byrjaði samt á því að skiptast á lágspörkum við Barboza sem er eiginlega sturluð taktík. Gaethje er vissulega með þung og góð lágspörk en þarna fór hann að skiptast á spörkum við einn besta sparkarann í bransanum. „Ef þú sparkar í mig þá ætla ég bara að sparka fastar í þig,“ var taktíkin hans og það hefði alveg getað klikkað og Gaethje verið einfættur eftir hálfa lotu. En Gaethje var alveg til í að taka sénsinn til að brjóta Barboza niður – líkamlega og andlega.

Gaethje er svo sturlaður karakter. Hann vill draga menn í djúpu laugina og sjá hvort þeir geti synt með sér. Gaethje hefur sagt að hann elski að sjá andstæðingana brotna og er það yfirlýst markmið hans að taka sál þeirra. Oftast hljóma svona línur eins og einhver sölumennska fyrir ægilega töffara en í tilviki Gaethje þá trúir maður þessu. Hann veit að andstæðingar hans hugsa „ég vil aldrei ganga í gegnum þetta aftur,“ eftir að hafa mætt honum og hann elskar það.

Embed from Getty Images

Gaethje kemur með einhverja ringulreið, einhvern storm inn í búrið sem þú þarft að lifa af til að vinna. Það gerðu menn eins og Dustin Poirier og Eddie Alvarez í geggjuðum bardögum (bestu bardagar ársins 2017 og 2018). Ef þú ætlar að vinna Gaethje þarftu að vera tilbúinn í 15/25 verstu mínútur lífs þíns!

Það er eðlilega mikil spenna fyrir bardögum Gaethje en maður hefur líka smá áhyggjur. Hann fær að meðaltali 10,23 högg í sig á mínútu sem er sturluð tölfræði! Til samanburðar eru fjórir síðustu andstæðingar Gaethje að fá um það bil fjögur högg í sig á mínútu.

Gaethje kemur inn ábyrgðarlaus í búrið og fær í sig helling af höggum á meðan hann gefur nokkur högg. Það má auðvitað ekki gleyma því að Gaethje er frábær glímumaður og var á topp 8 á landsvísu í efstu deild bandarísku háskólaglímunnar. Samt hefur hann bara reynt eina fellu (gegn Eddie Alvarez) í sínum fimm bardögum í UFC.

Gaethje kýs frekar að fara í einhvers konar að duga eða drepast ham sem fæst okkar munu nokkurn tímann skilja. Gaethje fer þarna inn til að gefa allt sitt í þetta og hefur sagt að hann sé tilbúinn að deyja í búrinu. Hann myndi í það minnsta frekar vilja deyja í búrinu heldur en í „bílslysi eða einhverju álika heimskulegu,“ eins og hann orðaði það á sínum tíma.

Þetta er svo sannarlega hættulegur stíll og eitthvað sem allir bardagaaðdáendur ættu að horfa á úr öruggri fjarlægð. Það er örugglega hrikalega streituvaldandi að vera þjálfari hans vitandi hvaða ákvarðanir Gaethje vill taka í búrinu.

„Þetta er íþrótt sem ég myndi ekki óska mínum versta óvin að ganga í gegnum. En ég var fæddur og uppalinn til að gera þetta. Og ég mun halda áfram að gera þetta þar til hjólin detta af vagninum,“ sagði Gaethje eftir bardagann. Allt sem þessi maður segir er svo auðtrúanlegt miðað við það sem hann hefur gert í búrinu.

Þó við getum notið þess að horfa á hann í dag vonar maður að hann taki ekki marga bardaga í viðbót. Tvö ár í viðbót ætti að vera hæfilega langur tími í viðbót af þessu nema hann verði rosalega skynsamur allt í einu.

Hvað sem því líður mun ég halda áfram að horfa á Justin Gaethje berjast. Þó maður upplifi mikla spennu, áhyggjur, skemmtun og ákveðið samviskubit getur maður ekki sleppt því að horfa á Justin Gaethje.

Embed from Getty Images

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular