UFC var með bardagakvöld í Tékklandi um síðustu helgi. Í aðalbardaga kvöldsins sáum við Thiago Santos rota Jan Bachowicz en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.
Thiago Santos heldur áfram að bjóða upp á skemmtileg tilþrif en hann rotaði Jan Blachowicz í 3. lotu. Fram að því var bardaginn fremur rólegur og gerðist fátt markvert þar til Santos náði flottri tveggja högga fléttu sem smellhitti. Santos hefur nú unnið fjóra bardaga og þar af þrjá í léttþungavigt. Santos er kominn í góða stöðu í léttþungavigtinni og gæti fengið titilbardaga ef við gefum okkur það að Jon Jones sigri Anthony Smith (sem er ansi líklegt) núna um helgina.
Fyrir bardagann var Blachowicz á topp 5 í léttþungavigtinni og má gera ráð fyrir að Santos komist þangað eftir sigurinn. Titilbardagi var í ansi mikilli fjarlægð hjá Santos fyrir ári síðan en nýr þyngdarflokkur og góð sigurganga hefur breytt því hratt. Santos er nú kominn með 11 rothögg í UFC og er í 2. sæti yfir flest röthögg í sögu UFC (ásamt Anthony Johnson og Anderson Silva) á eftir Vitor Belfort sem er með 12 rothögg.
Petr ‘No Mercy’ Yan sýndi síðan að það skal taka hann alvarlega í UFC þegar hann sigraði John Dodson nokkuð örugglega. Dodson kvartaði nokkrum sinnum í dómaranum yfir meintum brotum Yan (sem voru aldrei sýnd aftur í endursýningu) en Yan sýndi enga miskunn og gaf lítið fyrir kvartanir Dodson. Yan er búinn að vinna alla fjóra bardaga sína í UFC á aðeins átta mánuðum og er farinn að banka hressilega á dyrnar í bantamvigtinni. Mögulegur bardagi gegn Jimmie Rivera eða John Lineker væri ansi spennandi fyrir Yan.
Stefan Struve átti síðan pínu skrítin bardaga gegn Marcos Rogerio de Lima. Hann var kýldur niður eftir örfáar sekúndur og gjörsamlega rústað í gólfinu í 1. lotu. Lotan hefði getað verið skoruð 10-7 eða minna Marcos í vil enda var þetta algjört rúst. Struve náði svo sjálfur að komast ofan á í 2. lotu þar sem hann kláraði Marcos með hengingu. Mjög sveiflukenndur bardagi. Struve tilkynnti svo eftir bardagann að þetta væri sennilega hans síðasti bardagi á ferlinum. Hann var ekki tilbúinn að segja að þetta væri 100% hans síðasti bardagi en hann var ansi tilfinninganæmur í viðtalinu í búrinu eftir bardagann. Það kæmi manni reyndar ekkert á óvart ef hann myndi síðan mæta í eitthvað Bare Knuckle Boxing eftir nokkra mánuði.
Næsta bardagakvöld UFC er svo á laugardaginn þegar UFC 235 fer fram. Þar verða tveir titilbardagar á dagskrá en í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Jon Jones og Anthony Smith.