spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Cerrone vs. Edwards

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Cerrone vs. Edwards

MyndÞ Paul Miller-USA TODAY Sports

UFC heimsótti Singapúr um síðustu helgi þar sem bardagasamtökin héldu lítið bardagakvöld. Leon Edwards sigraði Donald Cerrone í aðalbardaga kvöldsins en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

UFC heimsækir Asíu nokkrum sinnum á ári og eru bardagakvöldin ofast á mjög þægilegum tíma fyrir okkur í Evrópu. Það var því fínasta tilbreyting að horfa á bardaga í beinni á laugardagsmorgni í stað þess að vera að horfa seint um kvöld.

Leon Edwards náði í sinn besta sigur á ferlinum með sigrinum á Cerrone og leit bara vel út. Hann hefði fengið enn meiri athygli ef hann hefði náð að klára Cerrone en það er alltaf erfitt. Edwards naut mikilla yfirburða fyrstu tvær loturnar en svo komst Cerrone betur inn í bardagann án þess að sigurinn hafi verið mikið í hættu fyrir þann breska. Edwards er núna búinn að vinna sex bardaga í röð í UFC en bara klárað tvo þeirra. Hann hefur þar af leiðandi ekki fengið neitt brjálæðislega mikla athygli en með sigrum á mönnum á borð við Donald Cerrone verður nafn hans stærra. Það er samt ekkert sérstakt eða áhugavert við hann – hann er bara góður bardagamaður sem er ekkert sérstaklega áhugaverður karakter og gæti unnið langflesta í veltivigtinni í dag. Bardagar hans eru fremur óminnisstæðir og mun Edwards sennilega þurfa að hafa mikið fyrir því að fá titilbardaga einn daginn. Með hans stíl og karakter þarf hann að gera ansi mikið til að fá athygli og titilbardaga.

Donald Cerrone hefur nú tapað fjórum af síðustu fimm bardögum sínum. Dagar hans sem einhver áskorandi í veltivigtinni eru sennilega taldir en virðist samt eiga nóg inni til að eiga skemmtilega bardaga. Hann er ennþá stórt nafn og er ennþá til í að berjast oft á ári gegn hverjum sem er. Hann er kannski ekki jafn góður og hann var fyrir nokkrum árum en samt alltaf gaman að horfa á kúrekann slást. Spurning hvort að hann og Gunnar Nelson endi kannski saman í búrinu áður en Cerrone verður alveg dottinn af topp 15. Bardagi milli Gunnars og Cerrone í haust væri mjög spennandi þó Cerrone sé ekki jafn hátt skrifaður í dag eins og fyrir tveimur árum.

Ovince St. Preux (OSP) heldur áfram að eiga skrítna bardaga í UFC. Hann virðist alltaf geta tapað upp úr þurru en á það líka til að ná í sigur þegar útlitið er ekki gott. Tyson Pedro kýldi OSP niður snemma í bardaganum en gerði slæm mistök með því að fara í fellu. OSP snéri stöðunni við og náði Pedro í armlás og kom reynsluleysi Pedro bersýnilega í ljós. Þetta var 9. bardaginn hans sem atvinnumaður en þar af eru fimm í UFC. Marga bardaga hefur hann klárað í 1. lotu og er hann því ekki með margar mínútur í búrinu. Hann er bara 26 ára gamall og þó hann sé bara 3-2 í UFC er hann ennþá efnilegur og á eftir að fá fleiri stór tækifæri í UFC. Með smá meiri kænsku og reynslu á hann möguleika á að brjóta sér leið að toppnum þó hann mæti hraðahindrunum hér og þar.

Embed from Getty Images

Á kvöldinu fengum við líka að sjá tvo efnilega standa sig frábærlega. Kínverjinn Song Yadong kláraði Felipe Arantes með svakalegum olnboga í 2. lotu og hefur hann nú klárað báða bardaga sína í UFC. Það virðist samt vera einhver óvissa og kennitöluflakk á aldrinum hans en UFC segir hann vera tvítugan en á bardagakvöldi í Kína í fyrra var hann sagður 23 ára. Hvort sem hann er 20 ára eða 24 ára er hann mikið efni, æfir hjá Team Alpha Male í Bandaríkjunum og gæti orðið stór stjarna fyrir UFC í Asíu. Petr Yan átti síðan geggjaða frumraun þegar hann rotaði Teruto Ishihara í 1. lotu. Yan er fyrrum bantamvigtarmeistari ACB en þetta var fyrsta tap Ishihara á ferlinum eftir rothögg.

Það næsta sem UFC býður upp á er sannkölluð bardagaveisla! Föstudaginn 6. júlí fer TUF Finale fram og svo daginn eftir fáum við UFC 226 þar sem þeir Stipe Miocic og Daniel Cormier mætast í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular