spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Holm vs. Correia

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Holm vs. Correia

Mynd: David G. McIntyre-USA TODAY Sports

UFC heimsótti Singapúr um helgina og fóru þar 12 bardagar fram. Holly Holm komst aftur á sigurbraut með sigri á Bethe Correia.

Holly Holm hafði tapað þremur bardögum í röð fyrir helgina. Bardaginn byrjaði nú ekki vel fyrir hvoruga keppendur en dómarinn Marc Goddard bað keppendur vinsamlegast um að gera meira. Nánast ekkert gerðist í fyrstu tveimur lotunum en í þriðju lotu smellti Holm glæsilegu hásparki og fylgdi því eftir með einu höggi í gólfinu sem rotaði Correia. Fram að rothögginu stefndi þetta í einn leiðinlegasta bardaga allra tíma.

Skömmu fyrir rothöggið var Correia með smá stæla. Hún sagði Holm að koma til sín, setti hendurnar niður og virtist vera að segja eitthvað við Holm. Holm svaraði því bara með því að sparka í hausinn á henni. Smá karma þarna fyrir Correia.

Þetta var gríðarlega kærkominn sigur fyrir Holm sem hafði ekki unnið bardaga síðan hún rotaði Rondu Rousey í nóvember 2015 en það var einnig eftir háspark. Holm vill fá titilbardaga en það er sennilega ólíklegt á þessari stundu. Bardagar hennar undanfarið hafa einfaldlega ekki verið nógu skemmtilegir. Hún virðist geta gert svo miklu meira en hún sýndi í töpunum og þurfum við að sjá meira af þessum tilþrifum áður en hún fær aftur titilbardaga. Annar sigur eins og sá um helgina myndi gera aðdáendur aftur spennta fyrir Holm. Aftur á móti er hún enn stór stjarna fyrir UFC og með góðan umboðsmann. Það er því aldrei að vita nema Holm fái næsta titilbardaga í bantamvigtinni.

Dong Hyun Kim tapaði fyrir Colby Covington í miklum glímubardaga. Kim hefur ekki litið nógu vel út í síðustu tveimur bardögum sínum og spurning hvort hann sé ekki bara á niðurleið núna, 35 ára gamall. Hugsanlega er tími hans sem topp 10 veltivigtarmaður liðinn en það á eftir að koma betur í ljós.

Covington er að gera margt rétt. Hann er að vinna bardaga sína örugglega og notar styrkleika sína vel en þykir aftur á móti ekki skemmtilegur í búrinu. Hann reynir að vekja á sér athygli með því að rífa kjaft og tala mikið en það verða hálfgerð púðurskot þegar aðdáendum finnst þú ekki skemmtilegur. Hann er strax orðinn skemmtilega óvinsæll meðal harðkjarna bardagaaðdáenda og sérstaklega eftir að hann bað um titilbardaga eftir sigurinn á Dong Hyun Kim.

Rafael dos Anjos leit vel út í frumraun sinni í veltivigtinni þegar hann sigraði Tarec Saffiedine eftir dómaraákvörðun. Það verður gaman að sjá hans næstu skref í veltivigtinni enda fullt af spennandi viðureignum fyrir hann þar. Fyrrnefndur Covington hefur ítrekað óskað eftir bardaga gegn dos Anjos og spurning hvort að nú sé ekki bara rétti tíminn fyrir þann bardaga.

Næsta UFC kvöld fer fram á sunnudaginn þegar þeir Michael Chiesa og Kevin Lee mætast í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular