Friday, April 19, 2024
HomeForsíðaSunna Rannveig mætir Kelly D'Angelo í júlí

Sunna Rannveig mætir Kelly D’Angelo í júlí

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Sunna Rannveig Davíðsdóttir er komin með sinn næsta bardaga í Invicta. Sunna mætir þá Kelly D’Angelo þann 15. júlí.

Sunna Rannveig (2-0) berst sinn þriðja atvinnubardaga og þriðja bardaga á Invicta FC 24 bardagakvöldinu. Eins og vanalega fer bardaginn fram í Kansas í Missouri eins og flest bardagakvöld Invicta.

Síðast barðist Sunna í mars þegar hún sigraði Mallory Martin eftir dómaraákvörðun í hörku bardaga. Bardaginn var valinn besti bardagi kvöldsins og hlutu báðir keppendur mikið lof fyrir frammistöðuna.

Sunna var afar glöð þegar bardaginn var staðfestur. „Það mætti segja að mig sé búið að klæja í hnúana undangengnar vikur. Ég setti mér markmið um að berjast fjórum sinnum á þessu ári og þess vegna er ég afar fegin að fá bardaga svona fljótt aftur,“ segir Sunna í fréttatilkynningu.

Andstæðingur Sunnu er nýliði í Invicta bardagasamtökunum en er engu að síður 2-0 sem atvinnumaður rétt eins og Sunna.

„Mér lýst mjög vel á hana. Ég veit lítið um hana annað en það að þetta er heimastelpa. Hún býr í Missouri og verður þar af leiðandi væntanlega með marga stuðningsmenn með sér. Svo veit ég að hún er ósigruð á ferlinum bæði sem áhugamaður og atvinnumaður. Ég vil berjast á móti þeim bestu og það eru engir auðveldir andstæðingar í boði hjá Invicta. Það verður því ekkert vanmat hjá mér og ég mun mæta almennilega undirbúin og klár í slaginn þegar þar að kemur.“

Bardagakvöldið fer fram laugardaginn 15. júlí eða daginn fyrir bardaga Gunnars Nelson gegn Santiago Ponzinibbio í Skotlandi. Það verður því nóg að gera fyrir bardagaaðdáendur þá helgi og eru æfingabúðirnar hjá Gunnari og Sunnu í fullum gangi.

„Æfingabúðirnar hans Gunna eru hafnar fyrir nokkru og um leið og ég fékk veður af því að ég gæti fengið bardaga líka í júlí þá fór allt í gang hjá mér. Það hjálpar okkur báðum að vera að gera okkur klár í bardaga á sama tíma. Húsið fyllist og það er yfirleitt mjög góð stemning hjá okkur á meðan á æfingabúðum stendur,” segir Sunna.

Í Mjölni eru því tvöfaldar æfingabúðir í gangi – annars vegar fyrir Gunnar og hins vegar fyrir stelpurnar. Í síðustu viku komu hingað til lands tvær öflugar bardagakonur sem berjast sömu helgi. Joanne Calderwood er í næstsíðasta bardaganum á UFC bardagakvöldinu í Skotlandi en hún mætir þá Cynthia Calvillo. Calderwood, eða Jojo eins og hún er alltaf kölluð er í 7. sæti á styrkleikalista UFC í strávigt kvenna.

Jinh Yu Frey (5-2) kom sömuleiðis hingað til lands í síðustu viku. Hún berst á Invicta kvöldinu rétt eins og Sunna og mætir þá Ashley Cummins í atómvigt (105 pund).

„Vinkona mín hún Jo Jo Calderwood er að fara að berjast á sama kvöldi og Gunni og hún kom í síðustu viku. Það er frábært að þetta hittist svona á því ég gæti ekki mögulega fengið betri æfingafélaga en hana fyrir þennan andstæðing. Sömuleiðis þá er frábær bandarísk bardagakona, Jinh Yu Frey, líka mætt. Hún er að fara að berjast á Invicta FC 24 eins og ég og það er æðislegt að fá hana hingað líka til að vinna með. Þetta eru þriðju æfingabúðirnar mínar og ég er farin að kunna ansi vel á þetta hvað mataræði, svefn og andlega þáttinn varðar. Ég þarf að vera öguð og hörð við sjálfa mig á meðan á þessu ferli stendur en ég ætla að njóta alls þessa í þetta skiptið. Þið munið sjá bestu Sunnu sem þið hafið nokkurn tímann séð 15. júlí. Það er loforð!” segir Sunna að lokum.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular