spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Jacare vs. Hermansson

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Jacare vs. Hermansson

Embed from Getty Images

UFC var með fínasta bardagakvöld í Flórída á laugardaginn. Í aðalbardaga kvöldsins sáum við Jack Hermansson sigra Ronaldo ‘Jacare’ Souza en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Jack Hermansson nældi sér í sinn stærsta sigur á ferlinum um helgina. Fyrirfram voru ekki margir að búast við því að Hermansson, sem kom inn með rúmlega þriggja vikna fyrirvara, myndi sigra Jacare. Sá brasilíski hafði hingað til bara tapað fyrir þeim allra bestu (Yoel Romero, Luke Rockhold, Robert Whittaker og Kelvin Gastelum) en yfirleitt farið leikandi létt með aðra andstæðinga.

Hermansson var frábær á laugardaginn en Jacare var einfaldlega slappur. Hann gerði of lítið standandi og var frekar að eltast við þyngri en færri högg og tapaði þannig lotum. Auk þess var hann tekinn niður í 2. lotu og gjörsamlega stjórnað í gólfinu án þess að ná að ógna mikið af bakinu. Það var svekkjandi frá þessum margfalda heimsmeistara í brasilísku jiu-jitsu. Jacare var ekki mikið að eltast við felluna sjálfur sem var skrítið.

Jacare var um helgina enn einu sinni í góðri stöðu til að tryggja sér titilbardaga en virtist einhvern veginn aldrei detta í gang. Hann er orðinn 39 ára gamall og að renna út á tíma ef hann ætlar að fá einhvern titilbardaga. Það virðist ekki vera að fara að gerast úr þessu og er hann bara ekki nógu góður í dag til að berjast um titilinn – svo einfalt er það. Jacare olli miklum vonbrigðum um helgina.

Með sigrinum er Hermansson að stimpla sig inn sem topp bardagamaður í millivigtinni en ég veit ekki hvort hann sé einn af þeim allra bestu þó hann hafi unnið Jacare. Kannski er ég að gefa Hermansson alltof lítið lof fyrir frammistöðuna en mér fannst Jacare frekar mæta slappur til leiks heldur en að Hermansson sé svona rosalega góður. Það verður í það minnsta gaman að sjá hvern hann fær næst og gæti Kelvin Gastelum verið áhugavert próf. Talið er að þeir Paulo Costa og Yoel Romero munu mætast í sumar en ef ekki gæti Hermansson fengið annan hvorn þeirra.

Embed from Getty Images

Greg Hardy vann síðan einn lélegasta þungavigtarmann í sögu UFC; Dmitri Smolyakov. Við höfðum áður rætt um ótrúlegt getuleysi Smolyakov en hann var verri en maður bjóst við. Stór maður með lítið hjarta sem var fenginn inn til að tapa fyrir Hardy. Þetta er svo vandræðalegt að UFC skuli spila svona leiki svona rosalega augljóst. Ef UFC ætlar að velja svona andstæðinga fyrir Hardy ætti það eiginlega að vera grafið einhvers staðar snemma á bardagakvöldinu en UFC er að gefa honum annað tækifæri í lífinu og vilja augljóslega gera hann að einhverju nafni í MMA. MMA samfélagið virðist hins vegar ekkert vilja með hann gera, sama hvað lýsendur UFC segja að hann komi vel fram við starfsfólk UFC.

Alex Oliveira og Mike Perry áttu síðan mjög skemmtilegan bardaga þar sem Perry fór með sigur af hólmi. Þeir bardagamenn sem Gunnar Nelson hefur unnið hafa yfirleitt tapað næsta bardaga á eftir og fer Oliveira því í hóp með Damarques Johnson, Jorge Santiago, Brandon Thatch, Alan Jouban og Albert Tumenov en allir hafa þeir tapað fyrir Gunnari og næsta bardaga á eftir. Oliveira kom mjög æstur til leiks og sprengdi sig eiginlega enda er eiginlega allt sem hann gerir byggt á sprengikrafti og styrk.

Næsta helgi verður áhugaverð í MMA heiminum. Á föstudeginum fer strávigtarmót Invicta fram þar sem Sunna Rannveig Davíðsdóttir keppir en á laugardeginum er UFC með bardagakvöld í Kanada þar sem þeir Al Iaquinta og Donald ‘Cowboy’ Cerrone mætast í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular