Tuesday, April 23, 2024
HomeForsíðaSunna Rannveig: Ég er að fara í stríð og hlakka mikið til

Sunna Rannveig: Ég er að fara í stríð og hlakka mikið til

Sunna Rannveig Davíðdsóttir snýr aftur í búrið á föstudaginn eftir 21 mánaða fjarveru frá keppni. Sunna er meðal átta kvenna sem keppir í strávigtarmóti Invicta FC en sigurvegarinn verður nýr meistari bardagasamtakanna.

Sunna Rannveig er 3-0 sem atvinnumaður í MMA en allir atvinnubardagarnir hennar hafa farið fram í Invicta. Sunna hefur ekki barist síðan þann 15. júlí 2017 þegar hún sigraði Kelly D’Angelo eftir dómaraákvörðun.

Langþráð handarmeiðsli hafa haldið henni frá búrinu og sömuleiðis gömul meiðsli eftir bílslys. Höndin hjá Sunnu verður aldrei 100% í lagi aftur en er núna eins góð og hún mögulega getur orðið. „Ég er búin að þjálfa höndina upp og gera það markvisst í langan tíma. Ég byrjaði rólega og byggði hana aftur upp hægt og rólega þar til ég gat farið að nota hana aftur af krafti í höggum. Núna er ég farin að geta kýlt af fullum krafti, get tekið neglur á hverjum degi og líður bara vel,“ segir Sunna.

Handarmeiðslin má rekja til bardagans gegn Mallory Martin í mars 2017 en höndin varð síðan verri í bardaganum gegn Kelly D’Angelo. Á meðan Sunna hefur verið fjarverandi hefur hún þó tekið miklum bætingum og hugað að öðrum hlutum íþróttarinnar.

„Ég vil meina að það besta sem gerðist fyrir mig var að ég fór að þjálfa af fullum krafti í Mjölni. Ég tók við sem yfirþjálfari í Kickboxinu og er búin að vera að vinna í unglingastarfinu og gegna ýmsum hlutverkum innan Mjölnis. Og það er það besta sem ég ákvað að gera. Það er líka svo rosalega margt skemmtilegt í gangi í þessu húsi [Mjölni] og rosalega mikið af góðu fólki og góð orka. Með þjálfuninni er ég bæði búin að skoða það sem ég geri; alveg frá grunni og fyrir lengra komna. Það hefur gefið mér rosalega mikið. Mér líður eins og ég sé bara búin að vera í bóklegum fögum í nokkra mánuði, vera að skoða aðra, skoða hvað ég get gert til að byggja aðra iðkendur upp svo þeir geti bætt sig. Þannig er maður í grunninn að skoða fólk. Skoða ýmsa tækni og finn að þetta fór inn í mitt kerfi líka.“

„Þegar ég fór að geta beitt mér eins og mig langaði að gera, vera heil á dýnunum og nota öll vopnin mín þá tók ég þetta til mín. Ég gat lagað ýmislegt og er ég með mjög gott fólk í kringum mig. Á sama tíma var ég líka að styrkja mig með styrktarþjálfun og tæknilegri þjálfun hjá þjálfurunum mínum þar sem ég er búin að bæta mig enn frekar frá grunni. Ég hef farið mikið dýpra í grunninn, margt sem mér finnst ég búin að laga og bæta, þar á meðal hvernig ég met fjarlægð. Gamla Sunna kann að bíta í munnstykkið og keyra áfram en núna hef ég lært að stilla mig af, hafa meiri aga og vera þolinmóð. Þar af leiðandi er ég að taka minni skaða, það gerist með því að meta fjarlægðina betur og tímastja mínar árásir. Það eru mínar bætingar.“

Mynd: Scott Hirano

Sunna keppir í átta kvenna útsláttarmóti á föstudaginn þar sem Sunna getur átt von á því að berjast þrjá bardaga á einu kvöldi. Bardagarnir eru þó með öðru sniði en venjulega þar sem fyrstu tveir bardagarnir eru aðeins ein fimm mínútna lota. Úrslitabardaginn er svo þrjár fimm mínútna lotur eins og hefðbundinn bardagi. En hvernig fer undirbúningur fram fyrir svona mót þar sem möguleiki er á að berjast gegn þremur andstæðingum á sama kvöldi?

„Að miklu leyti er undirbúningurinn sá sami og fyrir venjulegan bardaga. Ég er ekkert að ofhugsa þetta neitt, ég er að fara í stríð og hlakka mikið til. Helsta breytingin er á sparrdögunum þegar við tökum lifandi lotur þar sem öllu er blandað saman, þá gerum við þetta aðeins öðruvísi. Þá tek ég eina fimm mínutna lotu og svo góða pásu áður en ég tek aðra fimm mínútna lotu með nýjum æfingafélaga. Næst tek ég svo þrjár fimm mínútna lotur með þriðja æfingafélaganum og náum við þá að líkja þessu við fyrirkomulag mótsins.“

Þær konur sem berjast á mótinu eru allar reynslumeiri en Sunna og hafa barist á stóru sviði. Mizuki Inoue er 13-5 sem atvinnumaður og barðist um strávigtartitil Invicta í fyrra, Janaisa Morandin er 10-2 og barðist einnig um titilinn í fyrra, Danielle Taylor er 10-4 og náði ágætis árangri í UFC, Juliana Lima er 9-5 og var í UFC, Kailin Curran er 4-6 en hún var einnig í UFC, Brianna van Buren er 5-2 og Sharon Jacobson er 5-4 en þær hafa báðar verið í Invicta síðan 2015. Það eru því ansi sterkir keppendur í þessu móti.

Sunna mætir Kailin Curran en Curran var lengi vel í UFC þar sem hún vann einn bardaga en tapaði sex. Sunna er ekki mikið að skoða andstæðingana. „Ég er bara að pæla í hvað ég ætla að gera til að vera besta útgáfan af sjálfum mér. Það breytir engu hverri maður mætir, við getum allar átt mismunandi dag. Það sem skiptir máli er að ég er búin að gera allt sem ég get gert til að undirbúa mig til að keppa og vera besta útgáfan af sjálfum mér og skilja allt eftir í búrinu.“

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Þar sem fyrsti bardaginn gegn Kailin Curran verður aðeins ein fimm mínútna lota þarf leikáætlunin að taka mið af því. Auk þess hefur Invicta gefið það út að sú sem klárar bardagann sinn fyrst fær að velja andstæðing í undanúrslitum. „Ég er að hugsa þetta aðeins öðruvísi en venjulegur bardagi. Gameplanið er að horfa framhjá því að klára þetta sem fyrst og horfa frekar á heildarmarkmiðið sem er að vinna þetta mót. Ég er ekki að fara þangað til að vinna fyrstu lotu, ég er að fara þangað til að vinna mótið.“

„Ef þær eru blindaðar við að reyna að klára sem fyrst þá koma þær til með að gera mistök sem ég mun refsa þeim fyrir. Ég ætla að leyfa þeim að gera þessi mistök en ef þær eru skynsamar þá horfa þær á heildarmyndina. Það er samt vitað mál að fyrsta lotan verður rosaleg! Það verður mjög intense og undanúrslitin líka þar sem við munum allar gefa allt í þetta.“

Eins og kemur fram hér að ofan hefur Sunna lært að sýna meiri þolinmæði í búrinu í stað þess að vaða áfram. En hvernig kemur þolinmæðin heim og saman við stuttan fimm mínútna bardaga þar sem ein fella getur skipt sköpum?

„Við stelpurnar erum ekkert þekktar fyrir að taka því rólega, þannig að ég efast um að það verði bara aðeins þreifað fyrir sér í 1. lotu og lítið gert. Ég kann að vaða áfram og gefa allt í þetta og tek það með mér í búrið. En þar að auki er ég með meiri aga og þolinmæði. Að fara í gegnum fyrstu tvær loturnar án þess að hljóta neinn skaða þannig að maður sé í lagi í síðasta bardaganum er mjög mikilvægt. Það skiptir máli að fá ekki skurði í andlitið fyrr um kvöldið sem mun trufla mig það sem eftir er af kvöldinu. Maður þarf að horfa á heildarmyndina og þar skiptir máli að vera með hausinn í lagi.“

Undirbúningurinn fyrir bardagann hefur gengið mjög vel en hann hefur verið langur. Upphaflega átti Sunna að keppa við Brianna van Buren í mars en bardagakvöldið var fellt niður og enduðu báðar síðan í mótinu.

„Ég er búin að vera á fullu í langan tíma. Ég fór til Tælands í desember með dóttur minni þar sem ég æfði vel. Síðan kom ég heim í byrjun árs og byrjaði að æfa af fullum krafti þar sem ég bjóst við bardaga þann 16. mars. Ég var komin með andstæðing og allt en enduðum svo báðar í þessu móti. Ég er því búin að vera æfa eins og ég sé að fara að keppa í dágóðan tíma núna. Þetta hefur verið lengsta og besta camp sem hef átt.“

Fyrr í apríl fór Sunna til Las Vegas þar sem hún æfði með UFC bardagakonunni Joanne Calderwood hjá Syndicate MMA og fleiri konum í UFC. Sunna var í þrjár vikur í Las Vegas en hélt til Kansas fyrr í vikunni þar sem bardagakvöldið fer fram. Þar hittir hún þá Luka Jelcic og Hrólf Ólafsson sem verða í horninu hennar í bardaganum.

Mótið hjá Invicta er stórt og hefur vakið athygli en sigurvegarinn verður nýr strávigtarmeistari Invicta. Það er því mjög athyglisvert að Invicta skildi bjóða Sunna í mótið.

„Það að mér sé boðið segir mér bara að þeim finnst ég hugsanlega spennandi bardagakona. Ég er 3-0 í Invicta og hef tvisvar verið í Fight of the Night. Invicta er búið að bíða eftir að ég verði klár og gefið mér allan þann tíma sem ég hef þurft til að jafna mig og styrkja mig. Ég er mjög þakklát fyrir þetta tækifæri og að fá að koma til baka í svona mót. Ég fæ að vinna upp 20 mánaða fjarveru og með möguleika á að berjast þrjá bardaga við þrjár mismunandi konur og stimpla mig þar af leiðandi enn betur inn í bardagaheiminn. Þetta eru allt mjög harðir andstæðingar sem eru þarna sem eru búnar að stimpla sig inn að vissu leyti. Það er magnað að fá svona stórt tækifæri og get ég gert mikið þarna á einu kvöldi.“

Það er því mikið undir fyrir Sunnu en hvernig mun þetta fara?

„Ég stend uppi sem sigurvegari. Ég er búin að gera alla vinnuna, er búin að vera tilbúin lengi og er búin að fyllast af orku og eftirvæntingu. Ég hef æft markvisst fyrir þessa keppni, hef reynsluna við að keppa bæði sem atvinnumaður og áhugamaður. Ég tek allt með mér sem ég hef lært á undanförnum árum, allt sem lífið hefur kennt mér og tek allt með mér í búrið og ætla að skilja allt eftir í búrinu. Ég veit að þetta er nóg til þess að gefa mér sigur.“

Mótið fer fram á föstudaginn í Kansas og verður sýnt á Stöð 2 Sport og Fight Pass rás UFC. Bardagakvöldið hefst á miðnætti og er Sunna í 2. bardaga kvöldsins.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular