spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Lewis vs. Dos Santos

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Lewis vs. Dos Santos

Mynd: Kelly Ross-USA TODAY Sports Images

UFC var með bardagakvöld í Kansas á laugardaginn. Í aðalbardaga kvöldsins sáum við Junior Dos Santos rísa úr öskunni og sigra Derrick Lewis en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Junior Dos Santos er að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga í þungavigtinni, orðinn 35 ára gamall. Þessi fyrrum meistari hefur átt erfitt uppdráttar síðustu árin eftir að hafa tapað titlinum sínum til Cain Velasquez árið 2013. Þá hafa meiðsli átt sinn hlut í hans ferli. Eftir titilbardaga sem tapaðist gegn þáverandi meistara, Stipe Miocic, virðist JDS hafa náð að vinna sig mögulega aftur upp í titilbardaga í þungavigtinni með þremur sigrum í röð. Á laugardaginn náði JDS að forðast helstu bomburnar hans Derrick Lewis og það virðist vera það eina sem þarf að gera til að sigra hann. JDS sparkaði oftar en einu sinni í kviðinn á Derrick Lewis, sem virðist enn og aftir vera að hrjá hann, en slíkt hið sama gerðist í bardaga Lewis gegn Travis Browne. Þetta ætti því að vera vopn sem andstæðingar Lewis í framtíðinni ættu að beita.

Elizeu Zaleski dos Santos náði að sigra sinn 7. bardaga í röð í UFC gegn Curtis Millender. Zaleski er sem stendur í 14. sæti á styrkleikalistanum en mun sennilega standa í stað þrátt fyrir þennan frábæra sigur. Hann virðist bara verða betri og betri og má líklegt teljast að hann fái stærra nafn í næsta bardaga sínum sem ágætis prófraun. Talað hefur verið um Demian Maia á fréttamiðlum en Zaleski vill berjast aftur á stóra UFC bardagakvöldinu í Brasilíu í maí. Spurning hvern hann fær næst en Zaleski skoraði á Gunnar eftir sigur Gunnars á Alex Oliveira í desember. Gunnar berst auðvitað um helgina í London gegn Leon Edwards.

Ben Rothwell snéri aftur í búrið eftir næstum 3 ár í burtu vegna falls á lyfjaprófi. Hann náði því miður ekki að fullkomna kvöldið með sigri á Blagoy Ivanov. Rothwell var einfaldlega alltof lengi að kveikja á sér og gerði ekkert að ráði fyrr en í seinustu lotunni en þá var það orðið um seinan. Það er spurning hvað fjarveran hefur gert við Rothwell en hann er orðinn 37 ára gamall og eftir 3 ár í burtu er ekkert víst að hann komist aftur á sama stað og hann var eitt sinn kominn. Þetta er samt nú einu sinni þungavigtin í UFC svo það getur allt gerst. Einnig náðu Beneil Dariush og Omari Akhmedov að sigra sína bardaga en Akhmedov er kominn aftur upp í millivigt eftir nokkra bardaga í veltivigt (þar á meðal gegn Gunnari).

Næsta bardagakvöld UFC er svo á laugardaginn þegar UFC Fight Night: Till vs. Masvidal fer fram í London. Það verður auðvitað skylduáhorf fyrir alla Íslendinga þar sem Gunnar okkar Nelson berst í næststærsta bardaga kvöldsins gegn Bretanum Leon Edwards. Bardagakvöldið lítur vel út og er óhætt að mæla með því að fylgjast vel með.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular