spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Rothwell vs. Dos Santos

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Rothwell vs. Dos Santos

Junior-dos-Santos-Ben-RothwellUFC hélt sitt fyrsta bardagakvöld í Króatíu í gær og var bardagakvöldið ágætis skemmtun. Í Mánudagshugleiðingunum tölum við um helstu sigurvegarana og veltum því fyrir okkur hvort komið sé að endalokum hjá Gabriel Gonzaga.

Junior dos Santos sigraði Ben Rothwell í aðalbardaga kvöldsins. Hann var með frábæra leikáætlun sem gekk nánast fullkomnlega upp. Dos Santos var með góða fótavinnu sem kom í veg fyrir að Ben Rothwell gæti króað hann af upp við búrið sem hefur oft verið vandamál hjá dos Santos áður. Dos Santos henti í nokkrar bombur á Rothwell og er óhætt að segja að minni maður hefði ekki þolað þessar bombur.

Það má læra margt af þessum bardaga. Dos Santos hefur ekki riðið feitum hesti undanfarið og var síðast rotaður af Alistair Overeem í desember. Þar áður vann hann Stipe Miocic en mátti þola miklar barsmíðar í bardaganum og leit hann ekkert sérstaklega út þar. Eftir tapið gegn Overeem voru margir sem afskrifuðu hann og segja þeir sömu nú að „Junior dos Santos sé kominn aftur“ og að hann geti orðið meistari.

Við (bardagaaðdáendur) ættum þó að taka því aðeins rólega. Þetta var góður sigur eftir slæmt tap þar á undan og þýðir ekki endilega að sami gamli dos Santos sé kominn aftur. Það er aldrei hægt að afskrifa neinn í þungavigtinni eins og Andrei Arlovski og Mark Hunt hafa sýnt. Það að afskrifa dos Santos á sínum tíma var kjánalegt en að sama skapi skulum við fara varlega í að fullyrða að hann geti orðið meistari aftur. Hann vissulega getur það, en til þess þarf hann að halda áfram á sömu braut og halda áfram að bæta sig.

Sigurganga Rothwell er á enda en hann hafði sigrað fjóra bardaga í röð þar til í gær. Hann hefur bætt sig gífurlega á síðustu árum en kannski sýnt takmörk sín í gær. Hann getur klárlega haldið áfram að sigra menn á topp tíu en er kannski ekki að fara að vinna þessa allra bestu í þungavigtinni.

gabriel gonzaga

Komið gott hjá Gonzaga?

Gabriel Gonzaga tapaði í gær fyrir Derrick Lewis eftir rothögg í 1. lotu. Þetta var níunda tap Gonzaga eftir rothögg á ferlinum og hans ellefta tap. Hann hefur nú tapað fjórum af síðustu fimm bardögum en hans síðasti sigur var gegn Konstantin Erokhin í hræðilegum bardaga. UFC gæti ákveðið að rifta samningi hans eða hann hreinlega hætt. Það má líka efast um af hversu mikilli alvöru Gonzaga sé að gera þetta þar sem hann æfir mest megnis í eigin bardagaklúbbi, Team Link, í litlum bæ í Bandaríkjunum. Einhvern veginn er hægt að efast um að þar séu margir frábærir æfingafélagar í þungavigt.

Þetta var aftur á móti besti sigurinn á ferli Derrick Lewis en við munum tala nánar um hann síðar í vikunni.

Aðeins of mikið af þungavigtarmönnum

Í gær voru hvorki meira né minna en fimm þungavigtarbardagar á bardagakvöldinu. Það var kannski full mikið að hafa fjóra á aðalhluta bardagakvöldsins og hugsanlega hefði verið betra að hafa bardaga Tim Johnson og Marcin Tybura sem hluti af upphitunarbardögunum. Maður eins og Mairbek Taisumov hefði til að mynda fremur átt skilið að vera ofar á bardagakvöldinu enda er hann frábær bardagamaður.

Taisumov sigraði Damir Hadžović í gær og var það fjórði sigur Taisumov í röð í UFC með rothöggi. Það er skrítið hve hægt hann færist upp stigann í UFC og var hann í gær að berjast við nýliða í UFC. Eftir bardagann óskaði hann eftir topp tíu andstæðingi næst og vonandi verður honum að ósk sinni.

Zak Cummings hefur hægt og rólega komist 4-1 í UFC en eina tapið hans kom gegn Gunnari Nelson árið 2014. Hann sigraði Nicolas Dalby í gær og leit nokkuð vel út.

Næsta UFC er á laugardaginn þegar UFC on Fox 19 bardagakvöldið fer fram. Þá mætast þeir Glover Teixeira og Rashad Evans í aðalbardaganum og þá mun Khabib Nurmagomedov snúa eftir eftir tveggja ára fjarveru.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular