spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC on FOX: Jacare vs. Brunson

Mánudagshugleiðingar eftir UFC on FOX: Jacare vs. Brunson

UFC var með bardagakvöld í Charlotte í Norður-Karólínu á laugardaginn. Jacare rotaði Derek Brunson í aðalbardaga kvöldsins en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Jacare ekki dauður úr öllum æðum

Þetta var í annað sinn sem þeir Ronaldo ‘Jacare’ Souza og Derek Brunson mættust en fyrri bardagann vann Jacare með rothöggi í 1. lotu. Sagan endurtók sig um helgina en Jacare tókst aftur að rota Brunson í 1. lotu.

Hinn 38 ára Jacare er greinilega ekki af baki dottinn. Þetta var hans fyrsti bardagi síðan Robert Whittaker kláraði hann með höggum í fyrra og voru á kreiki efasemdir um að hann væri kannski ekki lengur meðal þeirra bestu í millivigtinni. Jacare sannaði það að það er alltof snemmt að afskrifa hann.

Hann mun kannski aldrei verða millivigtarmeistari UFC og gæti orðið einn af þeim bestu í sögunni til að vinna aldrei titil í UFC. Jacare hefur líka verið ágætlega óheppinn á ferli sínum í UFC. Stórir bardagar gegn Yoel Romero og Luke Rockhold hafa fallið niður vegna meiðsla og þá má færa rök fyrir því að Jacare hafi unnið Romero er þeir mættust á UFC 194.

Yoel Romero Jacare Souza
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Hann á kannski enn nokkur góð ár eftir en það er erfitt að sjá hann verða að meistara á þessu stigi ferilsins. Þó aldrei hægt að útiloka það enda var Michael Bisping millivigtarmeistari. Núna eru nokkrir góðir möguleikar framundan fyrir Jacare. Bardagi gegn annað hvort Kelvin Gastelum eða Chris Weidman væri áhugavert að sjá.

Það er þó hálfgerð stífla í millivigtinni eins og er. Meistarinn Robert Whittaker fékk nokkuð alvarlega sýkingu á dögunum og munu þeir Yoel Romero og Luke Rockhold berjast um bráðabirgðartitilinn í febrúar. Þegar Whittaker snýr svo aftur, hvenær sem það verður, mun hann berjast við annað hvort Rockhold eða Romero.

Það gæti því verið nokkuð langt þangað til Jacare fær titilbardaga þó hann myndi vinna Chris Weidman eða Kelvin Gastelum. Hann á ekki endalaust langan tíma eftir af ferlinum og gæti tíminn verið á þrotum.

Derek Brunson heldur áfram að tapa fyrir þeim bestu. Hann er nú með fjögur töp í UFC en þau voru gegn Yoel Romero, Robert Whittaker, Anderson Silva og nú Jacare. Þessi nöfn eru þó ekkert til að skammast sín fyrir. Það verður þó að koma fram að bardagann gegn Silva átti Brunson að vinna að flestra mati og var það rán ársins í fyrra.

Embed from Getty Images

Fili loksins á sigurgöngu

Andre Fili tókst loksins að vinna tvo bardaga í röð. Eftir að hafa skipts á að vinna og tapa allan sinn feril í UFC vann hann tvo bardaga í röð í fyrsta sinn. Sigurinn á Dennis Bermudez var þó dálítið umdeildur enda fannst mörgum að Bermudez hefði átt skilið að fá sigurinn dæmdan sér í vil. Þetta var þó gríðarlega jafn bardagi og ekki hægt að halda fram að um rán sé að ræða. Sigur eftir klofna dómaraákvörðun hjá Fili og gerði hann mjög vel gegn sterkum Bermudez.

Gregor Gillespie nýtti tækifærið sitt ansi vel um helgina. Augu margra voru á honum og olli hann ekki vonbrigðum. Hann er núna 4-0 í UFC og hefur klárað þrjá af þessum sigrum sínum. Þó hann sé 31 árs þá er óhætt að segja að þetta sé ansi spennandi bardagamaður. Hann er líka með titil í efstu deild í bandarísku háskólaglímunni og gæti komist langt í léttvigtinni.

Næsta bardagakvöld UFC er strax um næstu helgi í Brasilíu en þá mætast þeir Lyoto Machida og Eryk Anders í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular