spot_img
Thursday, November 14, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC on ESPN 3: Ngannou vs. Dos Santos

Mánudagshugleiðingar eftir UFC on ESPN 3: Ngannou vs. Dos Santos

Embed from Getty Images

UFC var með skemmtilegt bardagakvöld á laugardaginn. Francis Ngannou rotaði þar Junior dos Santos í 1. lotu og hefur nú unnið þrjá bardaga í röð.

Það tók Francis Ngannou aðeins 71 sekúndu að klára Junior dos Santos. Sá brasilíski óð inn með villta yfirhandar hægri en Ngannou lét hann missa marks og refsaði með þungum höggum.

Um leið og bardaginn var búinn hugsaði maður; „hvað var JDS að spá?“ Af hverju að vaða í mann sem er þekktur fyrir að klára menn snemma með ótrúlegum höggþunga? Junior dos Santos sagði eftir bardagann að planið hefði verið að halda Ngannou frá sér með stungu og beinni hægri og vera hreyfanlegur til að forðast höggþunga Ngannou. En dos Santos taldi sig sjá tækifæri á þungri yfirhandar hægri og sveiflaði án þess að hitta neitt nema loftið. Honum mætti þung högg Ngannou í staðinn og bardaginn búinn.

Eiginlega klaufalegt hjá jafn reyndum bardagamanni og dos Santos að vera strax farinn út fyrir leikáætlunina eftir 60 sekúndur af bardaganum en þetta var líka vel gert hjá Ngannou að refsa. Dos Santos var á sinni fyrstu sigurgöngu í sjö ár en þarf nú aftur að taka skref til baka. 35 ára virðist þetta vera búið hjá honum hvað varðar titilbardaga en þungavigtarmenn virðast eiga níu líf og því aldrei að segja aldrei.

Krafturinn hjá Ngannou er síðan ótrúlegur enda virðast höggin sem hann rotar menn með ekki vera neitt merkileg. Þetta er alls ekkert fullkomin tækni sem hann er að nota en höggin hitta og meiða. Nú hefur hann klárað Curtis Blaydes, Cain Velasquez og Junior dos Santos alla í 1. lotu og á samanlagt 2:22. Það er ansi vel af sér vikið.

Af níu sigrum Ngannou í UFC hefur hann aðeins fengið á sig 42 högg en þar af voru 24 gegn Curtis Blaydes í fyrri bardaga þeirra. Þeir Luis Henrique, Bojan Mihajlovic, Anthony Hamilton, Andrei Arlovski, Alistair Overeem, Curtis Blaydes (í seinni bardaganum), Cain Velasquez og Junior dos Santos náðu aðeins 18 höggum í hann samanlagt.

Embed from Getty Images

Nú tekur væntanlega við bið hjá Ngannou á meðan þeir Stipe Miocic og Daniel Cormier klára sín mál í ágúst. Það væri gaman að sjá hvað Ngannou myndi gera í seinni tilraun sinni gegn Miocic en bardagi gegn Daniel Cormier væri ennþá meira heillandi. Þar væri gaman að sjá hvað einn skarpasti bardagamaður allra tíma getur gert gegn alvöru skrímsli.

Á laugardaginn fer fram stórt bardagakvöld þegar UFC 239 verður á dagskrá. International Fight Week er þessa vikuna þar sem er mikið um viðburði fyrir aðdáendur en á bardagakvöldinu eru tveir titilbardagar á dagskrá – Jon Jones gegn Thiago Santos og Amanda Nunes gegn Holly Holm.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular