0

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í júlí 2019

Júlí er þokkalegasti mánuður fyrir MMA aðdáendur. Það er enginn risa bardagi en við fáum tvö stór UFC kvöld og sjálfan Jon Jones sem er aldrei slæmt.

10. UFC 240, 27. júlí – Cris Cyborg gegn Felicia Spencer (fjaðurvigt kvenna)

Felicia Spencer leit mjög vel út í hennar fyrsta bardaga í UFC þar sem hún afgreiddi Megan Anderson með „rear-naked choke“ í fyrstu lotu. Góð frammistaða hennar er verðlaunuð með bardaga við skrímslið Cris Cyborg. Talandi um erfiða innkomu í UFC.

Spá: Cyborg rotar Spencer í fyrstu lotu.

9. UFC 239, 6. júlí – Diego Sanchez gegn Michael Chiesa (veltivigt)

Þessi getur ekki orðið annað en skemmtilegur. Tveir TUF sigurvegarar mætast á ólíkum stað á ferlinum. Sanchez er lifandi goðsögn. Hann hefur litið ótrúlega vel út undanfarið en hann gjörsamlega flengdi Mickey Gall í hans síðasta bardaga. Það sem er skemmtilegt við þennan bardaga er að báðir eru uppgjafarglímumenn. Þetta verður því spurning um hver nær yfirburðastöðunum á gólfinu.

Spá: Tökum Chiesa á stigum en þetta verður ekki auðvelt.

8. UFC Fight Night 155, 13. júlí – Germaine de Randamie gegn Aspen Ladd (bantamvigt kvenna)

Lítum framhjá því að þessi bardagi sé aðalbardagi kvöldsins, eins skrítið og það er. Einn og sér er þetta flottur bardagi á milli topp bardagakvenna í bantamvigt. Sigurvegarinn er líklegur andstæðingur fyrir Amanda Nunes, nái hún að sigra Holly Holm.

Spá: Ladd er mjög efnileg en de Randamie er seig, Járnfrúin sigrar á stigum.

7. UFC on ESPN 4, 20. júlí – James Vick gegn Dan Hooker (léttvigt)

Ég er orðinn mikill aðdáandi Dan Hooker, finnst hann ferlega skemmtilegur bardagamaður. Hér fær stráksi fínan andstæðing en Vick einn af þessum efnilegu sem aldrei hefur náð að vinna sig almennilega upp styrkleikalistann. Ég býst við blóðugu stríði.

Spá: Hooker rotar Vick í þriðju lotu.

6. UFC 239, 6. júlí – Jan Błachowicz gegn Luke Rockhold (léttþungavigt)

Hefst þá nýr kafli í sögu Luke Rockhold eftir slæmt tímabil í millivigt en hann var illa rotaður í hans síðasta bardaga gegn Yoel Romero fyrir um 17 mánuðum. Í kjölfarið voru meiðisli að hrjá kappann og nú er hann búinn að þyngja sig upp í léttþungavigt. Fyrsti andstæðingurinn, Jan Błachowicz, hefur verið í þessum þyngdarflokki allan sinn feril og er í dag nr. 6 á styrkleikalista UFC. Rockhold er vissulega góður en hvernig verður hakan á móti stóru strákunum?

Spá: Błachowicz rotar Rockhold í annarri lotu.

5. UFC 240, 27. júlí – Max Holloway gegn Frankie Edgar (fjaðurvigt)

Max Holloway snýr aftur í fjaðurvigt eftir misheppnaða tilraun í léttvigt gegn Dustin Poirier. Sá bardagi var hrikalega erfiður fyrir Max og þessi gegn Frankie Edgar virkar á mig eins og frekar auðveldur endurkomubardagi, svona til að gefa Max sjálfstraustið aftur.

Spá: Holloway sigrar á TKO í þriðju lotu.

4. UFC on ESPN 4, 20. júlí – Rafael dos Anjos gegn Leon Edwards (veltivigt)

Hvað gerir Leon Edwards nú þegar hann er loksins kominn með stóran bardaga sem gæti skotið honum í titilbaráttuna? Rafael dos Anjos hefur sumum reynst sýnd veiði en ekki gefin. Það þarf yfirburðabardagamann til að sigra hann svo RDA er mjög góð mælistika á gæði í veltivigt.

Spá: Jafn bardagi en RDA tekur þetta á stigum.

3. UFC 239, 6. júlí – Amanda Nunes gegn Holly Holm (bantamvigt kvenna)

Holly Holm er síðasta stóra nafnið sem Amanda Nunes á eftir að sigra. Hún á alls ekki skilið titilbardaga en nafnið trompar sigra og hún er víst efst á lista þrátt fyrir gott gengi hjá t.d. Ketlen Vieira. Nú er spurningin hvort Nunes haldi áfram tortímingu á kollegum sínum og haldi sinni stöðu sem besta bardagakona í heiminum?

Spá: Þetta verður nokkuð tæknilegt en Nunes tekur þetta á stigum.

2. UFC 239, 6. júlí – Jorge Masvidal gegn Ben Askren (veltivigt)

Fyrsti bardagi Ben Askren í UFC var skrítinn. Robbie Lawler var nálægt því að slökkva á honum og að lokum var bardaginn stoppaður á uppgjafartaki þar sem dómarinn taldi Lawler vera meðvitunarlausan, sem hann var ekki. Nú mætir Askren Jorge Masvidal sem er hættulegur alls staðar, hefur gert allt og séð allt og er á góðu skriði eftir rosalegt rothögg gegn Darren Till.

Spá: Masvidal sigrar, frekar óvænt, á tæknilegu rothöggi í annarri lotu.

1. UFC 239, 6. júlí – Jon Jones gegn Thiago Santos (léttþungavigt)

Thiago Santos á ekki séns gegn Jon Jones. Eru ekki flestir sammála því? Við verðum samt að muna að Matt Serra átti ekki að vinna Georges St. Pierre. Enginn bjóst við að Chris Weidman myndi rota Anderson Silva. Enginn gaf T.J. Dillashaw mikla möguleika gegn Renan Barao og svo framvegis. Santos er hraustur strákur sem getur rotað með einu höggi, er með mikla reynslu og er árásargjarn. Líklega verður þetta enn einn einhliða Jon Jones bardaginn en möguleikinn er það sem gerir þetta spennandi.

Spá: Jones vinnur þetta örugglega á stigum, 50-45.

Óskar Örn Árnason

- Blátt belti í jiu-jitsu
- Hlaupari
- Þriggja barna faðir
Óskar Örn Árnason

Comments

comments

Óskar Örn Árnason

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.