Mark Hunt er vægast sagt ósáttur við UFC þessa dagana. Í The MMA Hour í gær lét hann gamminn geisa og er afar ósáttur með Brock Lesnar málið.
Mark Hunt tapaði fyrir Brock Lesnar á UFC 200 fyrr í mánuðinum. Eftir bardagann féll Lesnar á lyfjaprófi og vill Hunt fá einhverjar bætur í staðinn. Lesnar fékk að minnsta kosti 2,5 milljónir dollara fyrir bardagann og óskaði Hunt fyrst eftir því að fá helming launa hans. Ef UFC yrði ekki að ósk sinni mættu bardagasamtökin rifta samningi sínum.
„Ég gerði ráð fyrir að hann væri svindlari fyrir bardagann,“ sagði Hunt í The MMA Hour í gær. „Það er ekki séns að þessi maður sé 265 pund án þess að vera á einhverju. Hann er að stinga sprautum í rassinn á sér eins og restin af þessum svindlurum. Þetta er ekki sanngjarnt. Þessir menn eru að svindla og ætti að draga þá fyrir dómstóla fyrir það. Þeir ættu að missa allan peninginn sem þeir fengu fyrir bardagann ef þeir svindla.“
Lesnar mun ekki fá sekt frá UFC en á von á sekt frá íþróttasambandi Nevada fylkis. Hunt er ósáttur við að fá engar skaðabætur eftir að hafa tapað fyrir manni sem féll á lyfjaprófi.
Hunt sagðist ekki hafa heyrt neitt frá UFC eftir að Lesnar féll á lyfjaprófinu. „Ég fer og vinn fyrir mér annars staðar. Þeim er alveg sama. Skítt með UFC. Þeir hugsa ekki vel um neinn.“
Eftir viðtalið fékk Hunt símtal frá Jeff Novitzky, yfirmanni lyfjamála í UFC, og áttu þeir langt samtal. Viðtalið við Mark Hunt var ítarlegt og var Hunt svo sannarlega ekkert að skafa af hlutunum. Hann sendi UFC og Brock Lesnar tóninn og er afar ósáttur með núverandi stöðu mála.