Tuesday, April 16, 2024
HomeErlentMichael Bisping hrósar og drullar yfir Anderson Silva

Michael Bisping hrósar og drullar yfir Anderson Silva

UFC Sydney 127 Press ConferenceMichael Bisping mætir Anderson Silva á UFC bardagakvöldinu í London í febrúar á næsta ári. Bisping sat auðvitað ekki á skoðunum sínum er hann ræddi við blaðamenn á dögunum.

Michael Bisping hefur barist 24 bardaga í UFC en aldrei fengið titilbardaga. Hann er orðinn 36 ára gamall og ætlar sér loksins að ná tilbardaganum. Bardaginn gegn Anderson Silva verður einn af hans stærstu á ferlinum.

„Anderson er auðvitað goðsögn í íþróttinni, hann var meistari mjög lengi. Mig hefur langað að berjast við hann mjög lengi. Auðvitað hefði ég viljað berjast við hann er hann var meistari en þetta er engu að síður stærsti bardaginn sem ég gæti fengið fyrir utan titilbardaga. Anderson er enn risastórt nafn. Hann er mjög vinsæll og ég virði hann sem bardagamann,“ sagði Bisping.

„Mig hefur alltaf langað að mæta honum. Ég er viss um að ég geti unnið hann. Mig hefur alltaf langað að sýna heiminum að ég geti unnið Anderson og ég veit ég get það. Ég fæ að sýna það í febrúar.“

Anderson Silva er um þessar mundir að afplána eins árs keppnisbann sem hann fékk fyrir að verða uppvís um steranotkun eftir bardagann gegn Nick Diaz. Silva hélt allan tímann fram sakleysi sínu en í málsvörn sinni sagði hann að sterarnir hefðu verið í stinningarlyfi sem hann fékk frá vini sínum.

Þrátt fyrir að Bisping hafi talað vel um Silva gat hann ekki sleppt því að tala um lyfjapróf Anderson Silva. Sjálfur hefur Bisping aldrei fallið á lyfjaprófi en mætt þónokkrum andstæðingum sem hafa fallið.

„Við erum allir að elta draum – drauminn um að verða meistari. Þú nærð því með mikill vinnu og ákveðni. Staðreyndin er hins vegar sú að í lyfjaprófi Anderson Silva fundust ekki eitt, ekki tvö, heldur þrjú ólögleg efni.“

Í aðdraganda bardaga Silva gegn Nick Diaz var Silva tekinn í þrjú lyfjapróf. Þrjú ólögleg efni fundust í lyfjaprófum hans; Drostanolone (anabólískur steri), Temazepam og Oxazepam sem eru róandi efni sem Silva notaði til að hjálpa sér með kvíða og svefn kvöldið fyrir bardaga.

„Ég virði hann sem bardagamann en hann féll mikið í áliti hjá mér eftir þetta. Ég hef aldrei á ævinni tekið frammistöðubætandi lyf. Allir sem gera slíkt ættu að skammast sín. Að kalla sjálfan sig bardagalistamann og taka svo frammistöðubætandi lyf er mesta þversögn sem þú gætir nokkurn tímann gert. Ef ég á að segja eins og er ætti Anderson Silva að skammast sín.“

Michael bisping Anderson Silva

Bisping hefur ekki lengur áhuga á að berjast gegn þeim sem hafa fallið á lyfjaprófi en gerði undantekningu í þetta sinn þar sem þetta er Anderson Silva. Hann fagnar nýrri lyfjastefnu UFC en hefur þó enn sama álit á þeim sem hafa fallið á lyfjaprófum.

„Þú ert heigull ef þú hefur svindlað og tekið frammistöðubætandi efni. Þrátt fyrir að núna sé lyfjastefnan harðari breytir það því ekki að þú ert ennþá heigull og þú munt halda áfram að reyna að svindla á kerfinu.“

Anderson Silva var ósáttur með ummæli Bisping á Twitter um bannið og lyfjamál sín. Að hans mati hefði Bisping átt að sleppa því að tala um lyfjamálin í aðdraganda bardagans.

„Frammistöðubætandi lyf í MMA er eitthvað sem ég get aldrei skilið. Ef ég á að segja eins og er er ég mjög hissa á hrokanum í honum. Hvernig í ósköpunum dettur þér í hug að ég muni ekki tala um þegar þú féllst á lyfjaprófi í þínum síðasta bardaga? Það er nokkuð sem kemur bardaga okkar mikið við. Auðvitað vil ég að hann fari í lyfjapróf og ég væri til í að fara í lyfjapróf á hverjum degi. Ég er svo hissa á að hann ætlist til þess að þessi verði sópað undir teppið og að ég ætti ekki að minnast á þetta. Ég er mjög hissa á hrokanum í honum.“ sagði Bisping að lokum og hefur nokkuð til síns máls.

Bardaginn verður aðalbardaginn á bardagakvöldinu í London þann 27. febrúar.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular