spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMiesha Tate og staðan í bantamvigt kvenna

Miesha Tate og staðan í bantamvigt kvenna

miesha tateEftir að Miesha Tate vann Holly Holm um helgina er staðan í bantamvigt kvenna orðin ansi áhugaverð.

Miesha Tate vann Holly Holm á UFC 196 með „rear naked choke“ í 5. lotu. Það er eins gott að hún náði að klára henginguna þar sem bardaginn hefði getað endað með jafntefli. Holm tók lotur 1, 3, og 4 (10-9) á meðan Tate tók 2. lotu 10-8 þar sem hún hafði mikla yfirburði í lotunni. Hefði Tate náð fellunni eins og hún gerði í 5. lotu en ekki náð að klára bardagann hefði bardaginn getað endað með jafntefli ef sú lota hefði verið skoruð 10-9 Tate í vil.

Sem betur fer fyrir Tate tókst henni að klára henginguna og mátti sjá á svipnum hennar að hún ætlaði svo sannarlega ekki að sleppa takinu. Hún er því nýji bantamvigtarmeistari UFC.

Þar sem Tate er nú meistari er staðan orðin ansi áhugaverð í flokknum. Holly Holm vann auðvitað Rondu Rousey í nóvember með grimmilegu rothöggi. Meishu Tate tókst svo að sigra Holm í hennar fyrstu titilvörn en Tate hefur tvívegis mætt Rondu Rousey en tapað í bæði skiptin. UFC mun að öllum líkindum bóka Rousey-Tate 3 síðar á árinu en Dana White, forseti UFC, telur að Rousey muni ekki snúa aftur fyrr en í október/nóvember.

En hvað gerir Holm ef UFC bókar Rousey-Tate 3? Af efstu 10 keppendunum í flokknum hefur Holm aðeins mætt Rousey og Tate. Það eru því margir möguleikar í stöðunni fyrir hana.

sagan bw kvenna Ronda Rousey

Með sigri Tate hefur Ronda Rousey sennilega orðið aðeins spenntari fyrir því að snúa aftur. Það er eflaust meira spennandi tilhugsun fyrir Rousey að snúa til baka gegn Tate, sem hún hefur nú þegar unnið tvisvar, í stað þess að mæta strax konunni sem rotaði hana.

Rousey kveðst ekki hafa horft á bardagann á laugardaginn og sendi Dana White henni úrslitin í textaskilaboðum. Rousey svaraði um hæl og sagðist „þurfa að koma sér aftur af stað.“

Það þarf þó ekki að vera að Rousey verði fyrsta titilvörn Tate. Því er haldið fram að Rousey verði út árið upptekin í Hollywood-tengdum verkefnum. UFC gæti því þess vegna bókað Holm-Tate 2 þó margir bardagaðdáendur séu eflaust minna spenntir fyrir því.

Í þessari yfirferð má ekki gleyma Amanda Nunes og Cat Zingano. Nunes hefur unnið þrjá bardaga í röð eða síðan hún tapaði fyrir Cat Zingano. Zingano hefur ekkert barist síðan hún tapaði fyrir Rondu Rousey á 14 sekúndum í febrúar 2015. Hvenær sem hún mun snúa aftur á hún góðan séns á titilbardaga með einum góðum sigri. Zingano er auðvitað með sigur á meistaranum Mieshu Tate.

ufc kvenna

Það er ekki langt síðan talað var um að Rousey vantaði áskorendur. Eftir tap hennar og Holm hefur nýju lífi verið hleypt inn í flokkinn og verður afar spennandi að fylgjast með framvindu mála.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular