Friday, April 26, 2024
HomeForsíðaMikael með sigur og tap hjá Aroni

Mikael með sigur og tap hjá Aroni

Heimsbikarmót áhugamanna í MMA fer fram um þessar mundir í Prag. Fyrsti keppnisdagur var á dagskrá í dag en báðir keppa í 18-21 árs flokki.

Þeir Mikael Leó og Aron Franz Bergmann keppa á mótinu. Aron er tvítugur og Mikael 18 ára gamall og því keppa þeir í junior flokki. Þetta er í fyrsta sinn sem IMMAF (alþjóðlega MMA sambandið) heldur heimsbikarmót en hafa haldið heimsmeistaramót frá 2015 og munu halda slíkt í nóvember.

Mikael Leó Aclipen keppir í -61 kg bantamvigt og mætti Vadym Kornelishyn frá Úkraínu í fyrsta bardaga dagsins. Vadym sótti snemma í fellur en Mikael varðist vel. Vadym reyndi að ná Mikael niður alla lotuna en þess á milli lenti hann ágætis hnjáspörkum upp við búrið. Mikael eyddi mest allri lotunni í verjast fellutilraunum Vadym og náði ekki alveg að koma sínum árásum í gang í fyrstu lotu. Vadym náði ekki að gera mikið en vann sennilega lotuna.

Mikael kom mjög sterkur til leiks í 2. lotu og skaut strax í fellu. Hann náði flottri fellu upp við búrið, náði bakinu, lenti fínum höggum og átti lotuna frá A til Ö. Það var ljóst að Mikael ætlaði ekki að leyfa Vadym að ráða ferðinni og tókst Vadym ekki að verjast fellum Mikaels.

Í 3. lotu var það sama upp á teningnum nema Mikael lenti fleiri höggum standandi og í gólfinu. Það var því engin spurning hvar sigurinn myndi lenda þegar dómaraákvörðunin var opinberuð. Mikael sigraði eftir dómaraákvörðun og er kominn áfram í 8-manna úrslit.

Mikael mætir Marek Zachar frá Slóvakíu á morgun en Marek keppti ekki í dag þar sem hann sat hjá í fyrstu umferð. Marek er skráður 2-1 sem áhugamaður en er með fleiri bardaga að baki sem eru ekki skráðir. Bardagann hjá Mikael má sjá hér að neðan.

Aron Franz mætti Fabian Ufs frá Noregi í 66 kg fjaðurvigt. Fabian byrjaði á nokkrum fléttum standandi en vörnin stóð fyrir sínu hjá Aroni. Fabian henti í spark sem Aron greip og komst strax í góða stöðu í gólfinu. Fabian náði hins vegar armlás af bakinu og neyddist Aron til að tappa út strax á 1. mínútu. Reynsluleysi hjá Aroni að lenda í þessum armlás þar sem hann var ofan á í góðri stöðu í gólfinu. Lærdómsrík reynsla fyrir Aron eftir dýrkeypt mistök og er Aron úr leik á mótinu.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular