Thursday, July 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaAfar sannfærandi sigur hjá Mikael

Afar sannfærandi sigur hjá Mikael

Mynd: Ásgeir Marteinsson.

Heimsbikarmót áhugamanna í MMA fer fram um þessar mundir í Prag. Annar keppnisdagurinn var á dagskrá í dag og átti Mikael frábæra frammistöðu.

Þetta er í fyrsta sinn sem IMMAF (alþjóðlega MMA sambandið) heldur heimsbikarmót en hafa haldið heimsmeistaramót frá 2015 og munu halda slíkt í nóvember. Þeir Mikael Leó og Aron Franz Bergmann keppa á mótinu fyrir Íslands hönd. Aron féll úr leik í gær en Mikael sigraði sinn bardaga í gær og keppti því í 8-manna úrslitum í dag.

Mikael sigraði sterkan Úkraínumann í gær í 16-manna úrslitum í bantamvigt. Sá er Evrópumeistari í Combat Sambó en Mikael komst vel frá sigrinum án meiðsla.

Í dag mætti hann Marek Zachar frá Slóvakíu en þetta var fyrsti bardagi Marek á mótinu þar sem hann sat hjá í fyrstu umferð. Mikael ætlaði greinilega að taka þetta snemma í gólfið og fór strax í fellu sem hann náði. Í gólfinu valdi hann höggin sín vel, notaði mjaðmirnar vel til að núlla út ógnir Slóvakans og var mjög öruggur ofan á.

Í 2. lotu var það sama upp á teningnum en Mikael náði enn fleiri höggum inn úr betri stöðum í gólfinu. Mikael því búinn að vinna báðar loturnar og má færa rök fyrir því að 2. lota hafi verið skoruð 10-8 Mikael í vil, slíkir voru yfirburðirnir.

Slóvakinn vissi áður en 3. lota byrjaði að hann þyrfti að klára til að eiga von á sigri. Hann byrjaði því geyst og sveiflaði villt í von um að ná rothöggi en Mikael svaraði í sömu mynt, lenti góðum höggum og spörkum áður en hann skaut aftur í fellu. Slóvakinn greip um höfuð Mikael í von um að ná „guillotine“ hengingu en Mikael varðist vel og var aldrei í hættu þó Slóvakinn hafi haldið hengingunni í um það bil mínútu. Mikael kláraði bardagann ofan á gólfinu þar sem hann lét höggin áfram dynja á Slóvakanum.

Mikael vann því allar þrjár loturnar mjög örugglega og sigraði eftir dómaraákvörðun. Gríðarlega sannfærandi sigur hjá Mikael og algjör „Khabib frammistaða“.

Mikael er því kominn áfram í undanúrslit og mætir hann ríkjandi Evrópumeistara, Otabek Rajabov, á morgun. Rajabov er ósigraður, rústaði sínum andstæðingi í dag og verður mjög erfiður viðureignar. Bardaginn verður í beinni á IMMAF.TV og verður um 9 leitið í fyrramálið.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular