Monday, June 24, 2024
spot_img
HomeForsíðaMikael með tap á HM

Mikael með tap á HM

Mynd: Ásgeir Marteins.

Mikael Leó Aclipen er úr leik á Heimsmeistaramótinu í MMA. Mikael tapaði fyrir Frakkanum Souhil Arezki eftir dómaraákvörðun.

Þeir Viktor Gunnarsson og Mikael Leó Aclipen kepptu fyrir hönd Íslands á Heimsmeistaramótinu sem haldið er af alþjóða MMA sambandinu IMMAF. Báðir kepptu þeir í Jr. flokki (18-21 árs) og er mótið afar sterkt með 529 keppendum frá 60 löndum.

Viktor datt úr leik í gær og keppti Mikael í dag eftir að hafa setið hjá í fyrstu umferð. Andstæðingur Mikaels náði þægilegum sigri í gær og kláraði með uppgjafartaki í 2. lotu.

Mikael byrjaði bardagann vel og fór snemma í fellu. Arezki varðist vel og hélst bardaginn standandi um tíma. Mikael lenti ágætis höggum og spörkum og át sjálfur ekki mörg högg. Mikael hélt áfram að reyna við felluna en náði ekki að klára felluna.

Í 2. lotu byrjaði Arezki að lenda fleiri höggum og byrjaði að blæða verulega úr nefi Mikaels. Mikael fær mjög oft blóðnasir á æfingum og er þetta því ekki óvanalegt en læknirinn tók góðan tíma í að skoða Mikael. Bardaginn byrjaði aftur og náði Arezki fleiri höggum og þar á meðal góðum vinstri króki.

Í 3. lotu hélt Mikael áfram að reyna að ná fellunni en var að skjóta of langt í burtu og setti ekki fellurnar upp með höggum sem gerði Frakkanum auðveldara fyrir. Mikael náði þó fellu á síðustu mínútu bardagans en Arezki stóð upp og Mikael tókst ekki að lenda neinum höggum. Arezki lenti fleiri höggum í lotunni og Mikael náði ekki að klára fellurnar sínar.

Eftir þrjár lotur fór bardaginn í dómaraákvörðun þar sem Arezki sigraði eftir einróma dómaraákvörðun. Mikael vann 1. lotuna en Arezki lotur tvö og þrjú hjá öllum dómurum. Einn dómaranna skoraði 2. lotu 10-8 Arezki í vil sem er athyglisvert.

Ísland hefur því lokið keppni á sterku Heimsmeistaramóti í MMA. Arezki er kominn áfram og mætir Úkraínumanni í dag. Þess má geta að Otabek Rajabov sem varð bæði Evrópumeistari og Heimsbikarmeistari í þessum flokki og sigraði Mikael í fyrra féll úr leik í dag.

Mynd: Ásgeir Marteins.
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular