Thursday, June 20, 2024
spot_img
HomeForsíðaMikael: Veit hvar ég stend miðað við bestu gæjana

Mikael: Veit hvar ég stend miðað við bestu gæjana

Mikael Leó Aclipen keppir á Heimsmeistaramótinu í MMA í næstu viku. Eftir að hafa tekið brons á síðasta móti er hann staðráðinn í að taka gullið heim.

Mikael Leó er 18 ára gamall og mun keppa ásamt Viktor Gunnarssyni í Jr. flokki (18-21 árs) á Heimsmeistaramóti áhugmanna í MMA. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Mikael æft bardagaíþróttir í áratug og tók sína fyrstu MMA bardaga á Heimsbikarmótinu í Prag í fyrra. Eftir tvo sigra féll hann úr leik í undanúrslitum gegn Otabek Rajabov frá Tajikistan. Rajabov var þá ríkjandi Evrópumeistari og endaði á að taka gullið.

Sjá einnig – Viktor Gunnarsson: Einhverfan hjálpar mér í MMA

Mikael var mjög svekktur eftir bardagann og var í fyrstu ekkert alltof sáttur með eigin frammistöðu þrátt fyrir bronsið. Núna, nokkrum mánuðum síðar, er hann örlítið sáttari með Heimsbikarmótið í Prag.

„Fyrir mótið í Prag hafði ég ekki hugmynd um hvernig mér myndi ganga, kannski geðveikt vel eða bara hræðilega. Ég vissi að ég væri góður en ekkert meira, vissi ekki hvernig levelið væri á svona móti. Ég er glaður að hafa fengið svar, miðað við bestu gæjana, ef Otabek er standardinn, þá finnst mér ég vera þarna meðal bestu gæjanna í flokknum. Er mjög glaður að hafa fengið þetta svar fyrir sjálfan mig, vita hvar ég stend miðað við bestu gæjana í heiminum, þó ég hefði getað gert betur á móti Otabek,“ segir Mikael.

Mynd: Ásgeir Marteinsson.

Eftir tap í undanúrslitum í Prag fékk Mikael bronsmedalíu sem Mikael þótti ekki merkilegt. „Ég vildi ekkert eiga medalíuna og lét pabba minn fá hana. Ég veit ekki hvar hún er. Ég er bara sáttur með gull.“

Núna er Mikael að fara á sitt annað stórmót og kemur á mótið reynslunni ríkari. Eftir þrjá bardaga veit Mikael hverju á að búast við og hvað hann vill gera öðruvísi.

„Í fyrstu lotunni í fyrsta bardaganum var ég að gera smá af öllu. En núna veit ég að ég þarf að gera mitt strax, vera ákveðinn í því í stað þess að bíða. Ég hefði líka getað verið duglegri að reyna að klára síðast, grimmari að sækja í hálsinn t.d. og reyna að klára. Vera fljótari að gera það sem ég vil gera.“

„Í mínum fyrsta bardaga á móti Úkraínumanninum fékk ég gott spark í löppina mína og þá var ég marinn í löppinni alla þrjá dagana og það var bara eitt spark. Það skiptir ekki máli hversu góður standandi ég er, maður getur fengið högg sem geta haft áhrif á mann allt mótið. En ef ég tek gæja niður og klára hann strax þá er ég bara ferskur. Það er það sem ég sá gæjana sem lentu í 1. og 2. sæti gera. Þeir voru að klára þá ef þeir gátu það og voru ferskari. Ég var aðeins of safe fannst mér.“

Mikael keppir í 61 kg bantamvigt og þarf að vigta sig inn á hverjum keppnisdegi til vera gjaldgengur. Hann þarf því að halda þyngdinni sinni eins nálægt 61 kg og hann getur á meðan mótinu stendur.

„Ég var 70 kg þegar ég byrja að skera niður, þannig að jólin voru frekar leiðinleg þar sem ég þarf að passa allt sem ég borða en það er bara partur af þessu. Það er það sem mér finnst leiðinlegast við allt þetta MMA dæmi er mataræðið. Ég er þannig byggður að ég get eiginlega ekkert komist upp með að vera í fjaðurvigt, ég er aðeins of lágvaxinn og stuttur til að geta gert allt þar. Kannski í framtíðinni þegar ég verð fullorðinn maður þá prófa ég fjaðurvigtina.“

Mynd: Ásgeir Marteinsson.

Eins og áður segir tapaði Mikael fyrir Otabek Rajabov en fyrstu dagana eftir mótið hugsaði hann mikið um bardagann. Rajabov er skráður aftur til leiks í sama flokki og Mikael og gæti því Mikael fengið annað tækifæri gegn honum.

„Ég vil ekki lenda í því að hugsa of mikið um hann og svo lít ég framhjá einhverjum og tapa í fyrsta bardaga. IMMAF er ekki staður þar sem ég get komist upp með að vanmeta einhvern. Ég þarf að hugsa um einn andstæðing í einu.

„En stundum á æfingum þá hugsa ég um hvað hann gerði vel síðast gegn mér eins og spörk með vinstri fætinum, þá leita ég leiða til að fara frá sparkinu sem dæmi. Ég er búinn að æfa meira með Viktori [Gunnarssyni] og hann er með stíl sem ég get lært á sem ég held að myndi virka gegn Otabek.“

„Það væri gaman að geta unnið Otabek en ef hann dettur út þá er það allt í lagi. Mig langar bara að vinna gullið. Það er bara gaman að keppa við hann einhvern tímann ef það verður ekki núna. Hann er líka bara mjög góður og það er bara gaman að keppa við bestu gæjana.“

Fyrir mótið í ár hefur Mikael farið til íþróttasálfræðings til að verða enn betri íþróttamaður. „Ég er að prófa að fara til íþróttasálfræðings núna í fyrsta sinn. Er að gera hluti sem maður hafði alveg heyrt um áður en hlutir sem maður getur verið duglegri að gera. Líka gott að geta talað um hvernig þér líður um alls konar hluti sem þú talar ekki um við hvern sem er.“

„Ég hef svo sem ekki verið mikið stressaður fyrir mót. Ég verð ekkert stressaður fyrr en ég er kominn út. Verð alveg stressaður þegar ég keppi en ekki á þann hátt að það hafi mikil áhrif á mig. Veit að þetta verður stressandi umhverfi, hostile að vera þarna, allt mjög intense. Ef allt gengur upp verður þetta löng og erfið vika en skemmtileg á sama tíma.“

Það er dýrt að ferðast til Abu Dhabi þar sem mótið fer fram og er keppnisgjaldið á IMMAF sömuleiðis dýrt. Til að fjármagna ferðina hefur Mikael hannað og selt boli. Mikael hefur með hjálp foreldra sinna selt hátt í 90 boli og náð að fjármagna ferðina og gott betur en það.

„Þetta er bara mjög töff. Var ekki að búast við að þetta myndi vera svona vinsælt. Þetta er líka skemmtilegt, ef við búum til flotta boli sem fólk getur notað og fólk vill styðja mig þá er það bara win-win fyrir mig. Ég og Ásgeir [Marteinsson] hönnuðum bolinn og mér finnst hann persónulega mjög flottur. Bara gott að vita að það er hægt að gera þetta.“

„Fyrir næstu keppnisferð get ég hannað annan bol og haft meiri tíma til að hanna hann. Gaman að vera með valkost til að gera þetta í staðinn fyrir að vera bara að selja klósettpappír. Ég myndi persónulega vilja kaupa bol frá einhverjum sem ég vil styðja og ef bolurinn er flottur, þá kaupi ég bolinn. Finnst það bara mjög skemmtilegt hvað það gengur vel.“ Nokkur auka eintök eru til í afgreiðslu Mjölnis og er hægt að kaupa bolinn þar.

Mikael og Viktor fljúga til Abu Dhabi á laugardaginn. Dregið er í flokkinn á sunnudaginn og er svo fyrsti keppnisdagur á mánudaginn. Hægt er að horfa á bardagana í beinni á IMMAF.TV.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular