spot_img
Thursday, December 19, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMMA reynir að komast á ólympíuleikana en mætir óvæntum hindrunum

MMA reynir að komast á ólympíuleikana en mætir óvæntum hindrunum

Alþjóðlega MMA sambandið hefur reynt að undanförnu að koma MMA inn á ólympíuleikana. Sambandið mætir hindrunum víðs vegar án þess að vita hvað það er sem upp á vantar.

Alþjóðlega MMA sambandið IMMAF, International MMA Federation, var fyrst stofnað árið 2012. Markmið sambandsins er að huga að grasrótinni og efla íþróttina í heild sinni. IMMAF einbeitir sér að MMA áhugamanna og skiptir sér lítið af því sem stóru samböndin eins og UFC og Bellator gera. UFC hefur þó lengi staðið að baki við IMMAF með styrkjum og sýnt frá mótum IMMAF á Fight Pass rás sinni.

MMA í þeirri mynd sem við þekkjum í dag er einstök íþrótt að því leytinu til að íþróttin byrjaði á toppnum (UFC og önnur stór bardagasamtök) og grasrótin varð til í kjölfarið. Grasrótin hefur vaxið mikið á síðustu 20 árum og eru nú flott áhugamannamót haldin víðsvegar.

Síðan 2014 hefur IMMAF staðið fyrir Heimsmeistaramóti áhugamanna en þar hafa Íslendingar keppt á. Björn Lúkas Haraldsson tók silfur á HM 2017 en IMMAF stendur einnig fyrir Evrópumeistaramóti, Asíuleikum og Afríkumóti. Ísland hefur átt fjölmarga keppendur á EM en Bjarki Þór Pálsson, Egill Øydvin Hjördísarson og Sunna Rannveig Davíðsdóttir hafa öll orðið Evrópumeistarar í MMA.

Sunna Rannveig Davíðsdóttir
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Undanfarin ár hefur IMMAF reynt að koma MMA á ólympíuleikana. Ef það tækist myndu áhugamenn keppa á ólympíuleikunum og atvinnumenn í UFC og Bellator fengu því ekki keppnisrétt líkt og á Heimsmeistaramóti IMMAF. Formið yrði svipað og á HM þar sem keppendur myndu taka nokkra bardaga á nokkrum dögum, engir olnbogar eða hné í höfuð leyfð og notast yrði við legghlífar.

Til að komast á ólympíuleikana þarf að uppfylla ákveðin skilyrði. IMMAF telur sig hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til að uppfylla þau skilyrði. Áður en sótt er um hjá alþjóða ólympíunefndinni (IOC, International Olympic Committe) þarf IMMAF sambandið að komast inn hjá GAISF (The Global Association of International Federations). Sambandið í viðkomandi íþrótt þarf að vera viðurkennt af GAISF til að komast inn á ólympíuleikana. Sá slagur hefur reynst afar erfiður fyrir IMMAF.

IMMAF sótti fyrst um hjá GAISF árið 2016 en þá var þeim tjáð að rígur væri innan íþróttarinnar og væri því IMMAF ekki nógu sterkt samband. Á þessum tíma var World MMA Association einnig að reyna að verða alþjóðasambandið fyrir MMA og það var hindrun.

Í nóvember 2018 sameinuðustu IMMAF og WMMAA og mynduðu eitt sterkt samband. Að mati IMMAF var þetta stærsta hindrunin og sótti IMMAF aftur um að komast undir GAISF. Í mars 2019 var umsókn IMMAF hafnað.

Að sögn GAISF var það WADA (World Anti Doping Agency) sem setti sig á móti umsókninni. Það kom IMMAF í opna skjöldu þar sem lyfjapróf eftir WADA staðlinum hafa farið fram á alþjóðlegum mótum IMMAF frá 2015. IMMAF hefur því lögsótt WADA og mættust í réttarsal í ársbyrjun en málið er enn í gangi.

Í viðtali við MMA Junkie sagði framkvæmdastjóri IMMAF, Densign White, að aðrar bardagaíþróttir stæði í vegi fyrir IMMAF með hagsmunapoti sínu.

„Mörgum áhrifastöðum innan GAISF er stjórnað af forystumönnum bardagaíþrótta. Varaforseti GAISF er ritari alþjóðlega Muay Thai sambandsins. Nenad Lalovic, forseti glímusambandsins [United World Wrestling] hefur sterk áhrif innan GAISF. Hann er einnig í IOC og heldur sömu stöðu inann WADA. Hvert sem við förum mætum við forystumönnum bardagaíþrótta sem hafa mikil áhrif,“ sagði Densign við MMA Junkie.

„Er neitunin byggð á áliti um íþróttina? Það þarf ekki annað en að skoða aðrar íþróttir sem eru innan GAISF eins og Muay Thai og Combat sambó sem leyfa ýmislegt sem ekki má í MMA eins og skalla andstæðinginn. Og leyfa jafnvel höfuðhögg í barnaflokkum sem við gerum ekki.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem aðrar bardagaíþróttir reyna að leggja stein í götu MMA. Frakkland var lengi vel ein af fáum þjóðum heims þar sem MMA var bannað en bannið má að miklu leiti rekja til afstöðu franska júdósambandsins. Forseti júdósambandsins hélt því fram í fjölmiðlum að í MMA bardagaklúbbunum væri ekkert nema hryðjuverkamenn. Auk þess virðist hann setja samasemmerki á milli MMA íþróttarinnar og UFC en hann er ekki einn um að gera þau mistök.

IMMAF sótti aftur um hjá GAISF á þessu ári þar sem IMMAF sóttist eftir að fá „observer status“ hjá GAISF. Þeirri umsókn var hafnað 19. júní þrátt fyrir að IMMAF hafi staðist allar forsendur og kröfur. IMMAF hefur í fjögur ár reynt að komast undir GAISF, sent inn þrjár umsóknir og gert allt sem GAISF hefur óskað eftir en engin svör fást frá GAISF um hvað vantar.

GAISF vill ekki gefa upp hverjir sátu fundinn þegar umsókn IMMAF var hafnað. IMMAF telur fyrir víst að aðrar bardagaíþróttir innan GAISF séu að standa í vegi fyrir IMMAF.

„Svo virðist sem alþjóðaíþróttaheiminum sé stjórnað af einhverjum karlaklúbbi með engum kröfum um ábyrgð, gegnsæi eða sýnilegum fulltrúa. Ekkert sem ber merki um gott stjórnskipulag,“ segir í tilkynningu frá IMMAF sem kom á föstudaginn.

IMMAF mun áfram berjast fyrir að verða viðurkennd íþrótt af IOC. Fyrr á þessu ári fór herferðin „MMA is a sport“ af stað. Þekktir bardagamenn hafa talað um hve mikið íþróttin hefur hjálpað þeim en þar á meðal er Gunnar Nelson.

IMMAF telur að MMA eigi vel heima á ólympíuleikunum þó íþróttin væri aldrei eins og hún er í UFC. Samkvæmt IMMAF fylgjast 600 milljónir með íþróttinni og eru yfir 100 landsambönd tileinkuð íþróttinni – þar af 40 þeirra sem eru viðurkennd af íþróttaráðum landsins. Með viðurkenningu á íþróttinni alþjóðlega er auðveldara fyrir íþróttamenn að fá tryggingu, bardagamenn fá sömu réttindi og aðrir íþróttamenn í viðurkenndum íþróttagreinum og gæðaeftirlit með þjálfun verður betra.

Þessi slagur hefur tekið nokkur ár en er langt frá því að vera lokið. IMMAF vonast eftir að fá 100.000 undirskriftir frá einstaklingum sem vilja að íþróttin verði viðurkennd. Sem stendur hafa 14.500 undirskriftum verið safnað. Hægt er að skrifa undir hér.

Heimildir:

MMA Junkie

IMMAF

SportsPro

SportsPro

Inside The Games

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular