Íslandsmeistaramótið í Hnefaleikum 2025 fór fram um síðustu helgi í húsakynnum World Class Boxing Academy og voru margar þrusuflottar viðureignir á dagskrá. Ísak Guðnason frá Hnefaleikafélagi Kópavogs tók gullið í -75kg Elite flokki og vann sér inn Bensabikarinn sem fer til besta boxara mótsins.
Ísak átti tvær meistaraframmistöður gegn William Þóri Ragnarssyni frá Hnefaleikafélagi Reykjavíkur fyrri daginn í undanúrslitum og Benedikt Gylfa Eiríkssyni frá Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar seinni daginn í úrslitunum.
Bogatýr sóttu fjögur gull af fjórum mögulegum og voru það Artem Siurkov, Mihail Fedorets, Viktor Zoega og Gabríel Marínó Róbertsson sem sigruðu sína flokka. Úrslitaviðureign Viktors og Nóels Freys Ragnarssonar frá Hnefaleikafélagi Reykjavíkur var einn af bestu bardögum mótsins og sérstaklega lokaspretturinn. Viktor vann að lokum á klofinni dómaraákvörðun.
Elmar Freyr Aðalheiðarson frá Hnefaleikadeild Þórs tók gullið í +90kg Elite flokki og nafni hans Elmar Gauti Halldórsson frá Hnefaleikafélagi Reykjavíkur tók gullið í -80kg Elite flokki. Elmar hefur trónað á toppi -75kg flokknum í góðan tíma en einnig tekið bardaga í -85/86kg flokkum og jafnvel ofar. Elmar meiddist illa í öxlinni á snjóbretti í vetur og var að snúa tilbaka eftir það.
Arnaldur Sigurðarson ljósmyndari mætti á úrslitadaginn og tók myndir fyrir MMA Fréttir.









































































