Jon Jones var handtekinn fyrr í vikunni fyrir ölvunarakstur. Myndband af handtökunni hefur nú verið gert opinbert.
Aðfaranótt fimmtudags var Jon Jones handtekinn fyrir ölvunarakstur. Samkvæmt lögregluskýrslu var lögreglan kölluð til vegna skothljóða. Þar fannst Jones ölvaður í bíl sínum undir stýri. Jones sagðist ekki kannast við nein skothljóð.
Í myndbandi af handtökunni má sjá Jones gangast undir nokkur ölvunarpróf sem hann stóðst ekki samkvæmt lögregluskýrslu. Jones kvaðst eiga erfitt með einbeitingu í prófunum. „Ég er með athyglisbrest. Ég fæ borgað fyrir að vera kýldur í hausinn,“ sagði Jones.
Jones sagðist einnig vera með slæmt skammtímaminni þegar lögregluþjónarnir útskýrðu ölvunarprófin fyrir honum. „Skammtímaminnið mitt er mjög lélegt. Fólk veit það ekki um mig.“
Jones sagðist hafa verið að keyra þegar hann var stöðvaður og ætlaði sér að halda áfram að keyra. Jones sagðist hafa verið þreyttur á að hanga heima í samkomubanninu vegna kórónaveirunnar og vildi fara út að keyra.
„Ég var þreyttur á að vera heima. Ég var stoppaður bara fyrir að vera góður við heimilislausa. Þetta var fyrsti aksturinn minn í tvær vikur. Ég sá nokkra heimilislausa menn og var góður við þá, átti samtal við þá. Kom fram við þá eins og manneskjur.“
Jones var látinn blása og var áfengismagnið í blóðinu tvöfalt meira en leyfilegt er. Lögreglan var upphaflega kölluð til vegna skothljóða en Jones neitaði að hafa skotið úr byssu. Skammbyssa fannst undir bílstjórasætinu hans og skothylki fyrir utan bílinn sem passaði við skammbyssuna.
Jones var handjárnaður og færður í bifreið lögreglu en Jones virkaði í tilfinningalegu uppnámi þegar hann var færður í lögreglubílinn. Jones verður ákærður fyrir ölvunarakstur, fyrir vanrækslu á skotvopnum, fyrir að hafa opna áfengisflösku í bílnum og fyrir að hafa ekki verið með tryggingarskírteini á sér.
Samkvæmt verjanda í Albuquerque (þar sem Jones býr og var handtekinn) gæti Jones fengið 90-365 daga fangelsisdóm vegna fyrri brota. Jones var ákærður fyrir ölvunarakstur árið 2012 og varð valdur að þriggja bíla árekstri árið 2015.
Jones var sleppt úr gæsluvarðhaldi næsta morgun og þarf að mæta fyrir rétt þann 8. apríl.