Loksins hefur Ronda Rousey tjáð sig almennilega um tapið gegn Holly Holm. Í viðtali í spjallþætti Ellen Degeneres talaði hún opinskátt um tapið erfiða gegn Holly Holm.
Ronda Rousey var rotuð af Holly Holm þann 15. nóvember síðastliðinn. Bardaginn fór fram á UFC 193 í Ástralíu og hafði Holm gríðarlega yfirburði í bardaganum.
Í viðtalinu segist Rousey hafa vankast verulega við fyrsta högg Holly Holm. Eftir það hafi allt verið erfiðara, hún átti erfitt með að sjá og vissi eiginlega ekki hvað var að gerast.
Eftir bardagann leið henni ömurlega. „Ég sat á sjúkrastofunni og hugsaði með mér; ‘hvað er ég ef ég er ekki meistari?’. Ég sat þarna og íhugaði sjálfsvíg og fannst ég einskis virði og að öllum væri skítsama um mig,“ sagði Rousey.
Unnusti hennar, UFC bardagamaðurinn Travis Browne, var henni þó til halds og traust og var það nokkuð sem hafði gríðarlega góð áhrif á hana. „Ég horfði á hann og hugsaði með mér; ‘ég þarf að ganga með börnin hans, ég þarf að halda mér á lífi’“
Viðtalið má sjá hér að neðan.