Sonur Royce Gracie, Khonry Gracie, barðist sinn fyrsta MMA bardaga á dögunum. Hinn tvítugi Khonry sigraði eftir dómaraákvörðun og ætlar að feta í fótspor föður síns.
Royce Gracie er goðsögn í MMA heiminum. Royce sigraði fyrstu UFC keppnina árið 1993 þar sem hann beitti brasilíku jiu-jitsu. Þar með kynntist heimurinn íþróttinni og vann Royce þrjár af fyrstu fjórum UFC keppnunum.
Tvítugur sonur Royce barðist sinn fyrsta MMA bardaga á dögunum. Þá sigraði hann Ben Clark þann 22. september í Memphis. Khonry hefur æft jiu-jitsu alla ævi en þó aldrei keppt á neinum jiu-jitsu mótum. Khonry telur að áherslan á þessum mótum sé of mikil á stigagjöf í stað þess að klára með uppgjafartaki.
Khonry ólst upp í Bandaríkjunum og hefur bara heimsótt Brasilíu einu sinni á ári til að heimsækja afa sinn, Helio Gracie, sem nú er látinn. Khonry ætlar að halda arfleifð Helio uppi og setur stefnuna á að gerast atvinnubardagamaður.
Hann var þó nálægt því að segja skilið við jiu-jitsu og MMA á sínum tíma til að einbeita sér að knattspyrnu en 17 ára gamall ákvað hann að einbeita sér frekar að MMA. Khonry tók þátt í undirbúningi föður síns fyrir sinn síðasta bardaga gegn Ken Shamrock í fyrra og æfa þeir reglulega saman.
Fyrsta MMA bardaga hans má sjá hér að neðan en um áhugamannabardaga var að ræða. Khonry ætlar að safna reynslu sem áhugamaður áður en hann tekur sína fyrstu atvinnubardaga.
Heimild: MMA Fighting