UFC hélt sérstakan hádegisverð fyrir framan fjölmiðla í Kaliforníu í gær. Þeir Tony Ferguson og Fabricio Werdum svöruðu spurningum fjölmiðla áður en þeir fóru að hnakkrífast upp úr engu.
Tony Ferguson mætir Kevin Lee um bráðabirgðarbeltið í léttvigtinni á UFC 216 í næstu viku. Sama kvöld mætir Fabricio Werdum hinum skemmtilega Derrick Lewis í þungavigt.
Þeir Werdum og Ferguson sátu saman og svöruðu spurningum fjölmiðla í gær. Á meðan Ferguson var að svara spurningum hóf Werdum sjálfur að svara öðrum spurningum á portúgölsku. Það fór illa í Ferguson og byrjuðu þeir strax að rífast á spænsku og portúgölsku.
Werdum kallaði Ferguson ýmsum niðrandi nöfnum á borð við maricon (e. faggot). Skilja þurfti á milli þeirra en Werdum kom síðar þegar Ferguson var farinn og kláraði að svara spurningum blaðamanna.
Engin sérstök illindi hafa verið á milli Werdum og Ferguson hingað til en Ferguson benti á að umboðsmaður Werdum, Ali Abdelaziz, er einnig umboðsmaður Khabib Nurmagomedov. Þeir Ferguson og Khabib hafa þrisvar átt að mætast og eldað grátt silfur saman.
Þeir Werdum og Ferguson munu þó aldrei fá að útkljá málin í búrinu enda mikill stærðarmunur á þeim.