Aðalbardagi UFC 244 er enn í óvssi. Nate Diaz sagði í gærkvöldi að hann ætlaði sér ekki að berjast þar sem eitthvað fannst í lyfjaprófinu hans en USADA hefur ekki enn sett hann í tímabundið bann.
Nate Diaz tilkynnti í gær að hann muni ekki mæta Jorge Masvidal á UFC 244 í næstu viku. USADA, sem sér um öll lyfjamál UFC, hefur ekki enn tjáð sig um málið en tilkynning frá þeim mun berast í dag. Diaz hefur því ekki verið settur í neitt bann af hálfu USADA. UFC hefur ekki heldur tjáð sig um málið og er bardagi Nate Diaz og Jorge Masvidal því enn á dagskrá formlega séð.
Samkvæmt heimildum ESPN fundust leifar af SARM (selective androgen receptor modulator) sem er bannað. SARM efni hafa margsinnis verið tengd menguðum fæðubótarefnum og fundust til að mynda hjá Neil Magny þegar hann féll á lyfjaprófi. Magny var hreinsaður af sök á sínum tíma og fékk ekkert bann en það tók fjóra mánuði að klára hans mál. Hann var í keppnisbanni á meðan málið var til rannsóknar en var hreinsaður af sök í september. SARM efni hafa svipaða eiginleika og anabólískir sterar en með minni aukaverkanir en hefðbundnir sterar.
Ostarine og Andarine eru dæmi um SARM efni en margir bardagamenn hafa fallið á lyfjaprófi eftir að Ostarine fannst í lyfjaprófum þeirra. Flestir þeirra hafa þó náð að sýna fram á að efnið hafi komið úr menguðum fæðubótarefnum
Diaz hefur margsinnis talað gegn frammistöðubætandi efnum og ásakað alla aðra um að vera á sterum. Diaz sagði í yfirlýsingu sinni að hann taki aðeins nátturuleg fæðubótarefni eða þau sem fást í Whole Foods. Auk þess borðar hann ekki kjöt en íþróttamenn hafa áður fallið á lyfjaprófi eftir að hafa borðað mengað kjöt sem innihélt ólögleg frammistöðbætandi efni.
Svo virðist sem yfirlýsing Diaz hafi komið mörgum á óvart en íþróttasambandið í New York fylki (NYSAC) hafði ekki hugmynd um málið fyrr en Diaz sendi frá sér yfirlýsinguna.
Eins og áður segir er bardaginn ennþá formlega á dagskrá. Diaz vill ekki keppa fyrr en búið er að klára málið svo enginn haldi að hann sé að svindla. Diaz vildi ekki fara í felur með málið og tjáði sig sjálfur um málið. USADA tjáir sig ekki um lyfjamál keppenda fyrr en búið er að rannsaka málið til fulls nema einstaklingurinn sjálfur tjái sig opinberlega í málinu líkt og Diaz gerði.