spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaNate Quarry vs. UFC

Nate Quarry vs. UFC

Fyrrum UFC bardagamaðurinn Nate Quarry lét UFC heyra það nýlega. Þar talar hann opinskátt um launamál UFC og styrktaraðilana.

Launamál bardagamanna í UFC hafa lengi verið sveipuð dulúð. Sambandið gefur út umsamin laun sem virka oft á tíðum ansi lágar fjárhæðir. Algengar launatölur eru á bilinu 8 – 50.000 dollarar fyrir bardaga og annað eins fyrir sigur eða á bilinu 1-6 m.kr. fyrir skatta. Það hljómar kannski þokkaleg fjárhæð fyrir eina kvöldstund en taka verður með í reikninginn að bardagamaður þarf að eyða mörgum mánuðum í undirbúning þar sem hann þarf að greiða þjálfurum, æfingafélögum, næringarfræðingum og fleira og fleira svo ekki sé minnst öll árin sem það tók að byggja upp hæfileikana. Oft er bent á bónusa í þessu sambandi sem eiga að leiðrétta þetta meinta launagat en engar tölur eru til um hversu mikið er greitt í formi bónusa og oft hefur verið gefið í skyn að þeir séu mun minni en fólk heldur.

nate1

Einstaka sinnum heyrast gagnrýnisraddir um bæði launamál og meðferð UFC á bardagamönnum en fáir sem vinna fyrir sambandið þora að tjá sig. Nate Quarry vakti athygli í vikunni með grein sem hann birti á MMA spjallsíðu um þetta efni. Fyrir þá sem ekki vita er Quarry fyrrverandi UFC bardagamaður. Hann barðist tíu sinnum í UFC (vann sjö sinnum) á árunum 2005 til 2010. Hann barðist einu sinni um titil en tapaði eftirminnilega fyrir Rich Franklin. Sagan sem Quarry hafði að segja var nokkuð sláandi þó svo mörg atriði hennar hafi heyrst áður.

Nate sagði að þegar hann byrjaði var honum sagt að launin yrðu lág en hann gæti aukið tekjur sínar með styrktaraðilum. Svo fór UFC smám saman að þrengja að. Fyrst þurfti að samþykkja styrktaraðilana, svo máttu þeir ekki vera í samkeppni hvor við annan og svona hélt það áfram. Á endanum þurfti (og þarf) styrktaraðili að greiða UFC 50-100.000 dollara fyrir að styrkja bardagamann og láta hann auglýsa fyrir sig. Þetta er svo sem allt vitað en það brá mörgum við þegar Quarry staðhæfði að UFC væri í raun alveg sama um bardagamennina og að markmið sambandsins væri ekkert annað en að blóðmjólka þá og hámarka hagnað. Dæmið um styrktaraðilana væri bara ein birtingarmyndin.

dana-white-and-fertitta-brothers

Quarry bendir á að þó svo að Dana White og Fertitta bræðurnir hafi tekið við nær gjaldþrota búi og byggt sambandið upp sé staðan önnur í dag og hann vill meina að tími sé kominn til að bardagamenn fái mannsæmandi laun. Auk þess séu samningar sem bardagamenn gera við sambandið mjög einhliða og ósanngjarnir. Þeir eru gerðir til 4-5 bardaga í senn en UFC getur rift samningi bókstaflega þegar því hentar. Quarry leggur til að bardagamenn geti gert samning sem ekki sé hægt að segja upp svo að bardagamaðurinn hafi einhvern stöðugleika og geti einbeitt sér að starfinu í stað þess að lifa í stöðugum ótta við uppsagnir.

Quarry gagnrýndi líka Dana White fyrir það hvernig hann talar um starfsmenn sína. Aðdáendur þekkja þetta en Dana á það til að krossfesta menn á blaðamannafundum fyrir eitthvað sem þeir sögðu við hann í einkasamtali. Auk þess má enginn gagnrýna hann. Þá er hinn sami svo gott sem hálfviti. Nýjasta dæmið er einn besti meistari sem UFC hefur átt, George St. Pierre. Þegar hann tjáði sig um steranotkun bardagamanna var White ekki lengi að gera lítið úr honum á opinberum vettvangi.

Quarry hafði talsvert meira um UFC að segja og við hvetjum áhugasama til að lesa sér til það. Það er nauðsynlegt fyrir allar stéttir að berjast fyrir rétti sínum. MMA er ennþá ung íþrótt en UFC er farið að þéna meira en nokkru sinni fyrr. Þeir tekjuhæstu í hnefaleikum á borð við Floyd Mayweather eru að þéna allt að 50 milljón dollara fyrir einn bardaga. George St. Pierre hefur á sama tíma verið að fá á bilinu 4-5 milljónir dollara. Vandamálið er þó fyrst og fremst lág- og miðstéttin ef svo má kalla sem er varnarlaus gagnvart risa eins og UFC. Það sem vantar er meiri samkeppni, nú eða sanngjarnari samningar. Þetta gerist ekki af sjálfu sér en það hjálpar umræðunni mikið þegar menn eins og Nate Quarry leggja sitt á vogarskálarnar.

Hér má nálgast viðtal við Quarry í fullri lengd:
http://www.bloodyelbow.com/2014/2/19/5427020/nate-quarry-interview-full-transcript-ufc-dana-white-fighter-pay-sponsor

Nate-Quarry-vs-Tim-Credeur

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular