UFC bardagamaðurinn Nick Diaz var rétt í þessu dæmdur í fimm ára keppnisbann frá MMA. Diaz féll á lyfjaprófi eftir bardaga hans gegn Anderson Silva í janúar en þetta var þriðja brot hans í Nevada ríki.
Nick Diaz mætti Anderson Silva þann 31. janúar á UFC 183. Eftir bardagann féll Diaz á lyfjaprófi eftir að niðurbrotsefni marijúana komu fram í niðurstöðu lyfjaprófsins.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Diaz gerist sekur um þetta sama brot. Diaz bræðurnir Nick og Nate eru þekktir stuðningsmenn grasreykinga en þetta var í þriðja sinn sem Diaz fellur á lyfjaprófi í Nevada fylki – allt eftir marijúana reykingar.
Diaz var sektaður um 165.000 dollara eða 33% af 500.000 dollara launum hans fyrir bardagann gegn Anderson Silva. Í síðasta mánuði fékk Anderson Silva eins árs bann eftir að hann var uppvís að steranotkun en munurinn er sá að það var fyrsta brot Silva á meðan þetta var þriðja brot Diaz.
Refsingin tekur gildi frá 31. janúar á þessu ári eða strax eftir bardagann gegn Anderson Silva. Diaz er 32 ára núna og verður því 36 ára þegar banninu lýkur þann 31. janúar 2020. Hann hefur áður gefið það út að hann sé hættur í MMA og má gera ráð fyrir að hann hafi nú endanlega lokið ferlinum.
Að sögn Jeff Novitzky, varaforseta íþrótta- og heilsumála UFC, var marijúana magn Diaz í lyfjaprófinu það hátt að hann hlyti að hafa reykt rétt fyrir bardagann gegn Anderson Silva. Að hans mati var Nick Diaz skakkur í bardaganum sem gæti útskýrt undarlega hegðun hans í upphafi bardagans eins og sjá má hér: