Núna í kvöld er úrslitakvöldið í 27. seríu The Ultimate Fighter. Bardagakvöldið er frábær upphitun fyrir stóra kvöldið á morgun en hér eru nokkrar ástæður til þess að horfa á bardagakvöldið.
Líklegur áskorandi í millivigt? Brad Tavares gegn Israel Adesanya er aðalbardagi kvöldsins og ætti að verða frábær skemmtun. Þeim líkar ekkert sérstaklega vel við hvorn annan og ætti því að vera mikið undir. Tavares er númer 13 á styrkleikalista UFC í millivigtinni og telur að Adesanya eigi ekki skilið að vera í þeirri stöðu sem hann er kominn í, að vera í aðalbardaga bardagakvölds í UFC, eftir aðeins tvo bardaga í UFC. Tavares hefur unnið fjóra bardaga í röð í millivigtinni á meðan Adesanya hefur litið vel út í fyrstu tveimur bardögum sínum í UFC. Sigurvegarinn hér gæti því verið kominn í álitlega stöðu sem líklegur áskorandi í millivigtinni. Fáum við geggjuð tilþrif hjá Adesanya eða slekkur Tavares á „hæpinu“ í kringum Adesanya?
TUF sigurvegarar: Tveir nýir TUF sigurvegarar verða krýndir í kvöld – annars vegar í léttvigt og hins vegar í fjaðurvigt. Þeir Mike Trizano og Joe Giannetti mætast í léttvigt og Jay Cucciniello og Brad Katona í fjaðurvigt. Allt eru þetta ósigraðir bardagamenn (bardagarnir í TUF húsinu ekki teknir með á bardagaskorið) og eru eflaust hungraðir í að halda bardagaskorinu góðu.
Kúbudeilan: Julian ‘The Cuban Missile Crisis’ Marquez berst í kvöld en hann er spennandi millivigtarmaður með áhugavert gælunafn. Marquez hefur litið vel út síðan við sáum hann fyrst í Tuesday Night Contender seríunni. Þar tryggði hann sér UFC samning með höfuðsparki og fékk svo frammistöðubónus fyrir fyrsta sigurinn sinn í UFC. Hann berst gegn Alessio Di Chirico í kvöld sem fékk sjálfur frammistöðubónus eftir sinn síðasta sigur.
Ekki gleyma: Á bardagakvöldinu eru nokkrir áhugaverðir bardagamenn sem hafa kannski ekki átt frábæru gengi að fagna. Alex Caceres er oftast skemmtilegur en hann hefur tapað þremur af síðustu fjórum bardögum sínum. Þá mun Roxanne Modafferi mæta Barb Honchak en Modafferi hefur ekki barist síðan hún tapaði í titilbardaga sínum í fluguvigt kvenna í desember.
Aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 2 á íslenskum tíma og verður í beinni á Fight Pass rás UFC.