Á laugardagskvöldið fer fram UFC Fight Night 82 í Las Vegas. Upphaflega áttu Fabricio Werdum og Cain Velasquez að berjast um titilinn í þungavigt þetta kvöld en þess í stað fáum við stóran bardaga í veltvigt í aðalbardaga kvöldins. Kíkjum yfir helstu ástæður til að kíkja á þetta bardagakvöld.
- Stóra tækifæri Stephen Thompson: Karate undradrengurinn (sem er samt 32 ára gamall) hefur sigrað sex af sjö bardögum sínum í UFC. Hann hefur smám saman verið að nálgast þá bestu í þyngdarflokknum en hefur í raun aðeins einu sinni áður mætt topp tíu andstæðingi. Sá bardagi var gegn Matt Brown sem fór ekki vel fyrir Thompson. Hér fær hann tækifæri gegn einum af þeim bestu í heiminum og getur stimplað sig rækilega inn í toppbaráttuna í veltivigt með sigri.
- Hvernig lítur Johny Hendricks út? Johny Hendricks virtist stefna hratt upp í millivigt eftir misheppnaða tilraun til að ná veltivigt síðastliðinn október. Bardaginn átti vera gegn Tyron Woodley en fór aldrei fram. Nú virðist Hendricks vera í frábæru formi en mjög áhugavert verður að sjá hann í kvöld.
- OSP vs Feijao! Ovince Saint Preux og Rafael ‘Feijao’ Cavalcante eru sjaldan í leiðinlegum bardögum. Bardaginn er sérstaklega stórt tækifæri fyrir hinn eldri Feijao sem er talsvert neðar á styrkleikalista UFC og þarf á stórum sigri að halda. Báðir geta rotað en Feijao ætti að vera betri í gólfinu þó svo að OSP hafi sýnt góða takta þar líka.
- Flottur bardagi í fluguvigt: Joseph Benavidez mætir Zach Makovsky í mikilvægum bardaga í fluguvigt. Benavidez þarf að sigra til að halda stöðu sinni efst í þyngdaflokknum á meðan Makovsky þarf að vinna sig upp. Báðir eru öflugir glímumenn svo þetta ætti að verða áhugaverð viðureign.
- Nokkrir gamlir og góðir: Á þessu bardagakvöldi má sjá bregða fyrir nokkrum kunnuglegum nöfnum. Mike Pyle mun til að mynda mæta með sítt að aftan. Hann er orðinn 40 ára gamall, með 38 bardaga á bakinu en er alltaf skemmtilegur. Roy Nelson mun einnig berjast gegn hinum ferlega leiðinlega Jared Rosholt. Fyrr um kvöldið verður Josh Burkman auk þess á svæðinu. Hann keppti í annarri seríu af The Ultimate Fighter og mætir hér öðru nafni sem menn ættu að kannast við, K.J. Noons.
- Nýr keppandi í þungavigt: Lítil sem engin endurnýjun á sér stað í þungavigt svo það er vert að taka eftir nýju blóði í búrinu. Að þessu sinni er það hinn pólski Damian Grabowski sem þreytir frumraun sína í UFC. Grabowski er að vísu ekki beint nýliði. Hann er 35 ára með 22 bardaga á ferilskránni, þar af 20 sigra. Hann hefur barist út um allt, meðal annars í Bellator, en mætir hér ‘The Black Beast’ Derrick Lewis sem ætti að geta gefið okkur góða mælistiku á getu hans.
Fyrsti bardagi kvöldsins hefst á miðnætti á Fight Pass rás UFC en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 3 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.