0

Goðsögnin: Matt Serra

Matt-SerraGoðsögnin í dag er Matt Serra. Serra var veltivigtarmeistari UFC og var á sínum tíma afar vinsæll bardagamaður.

Matt Serra er einn af eftirminnilegustu karakterunum í UFC á síðustu árum. Serra átti ágætis feril í UFC þar sem hann barðist í léttvigt og veltivigt. Serra vann 4. seríu The Ultimate Fighter sem gaf honum titilbardagann fræga gegn Georges St. Pierre. Í dag er hann farsæll þjálfari og er annar helmingur Serra-Longo liðsins í New York.

Upphafið

Matt Serra hafði alla tíð mikinn áhuga á bardagaíþróttum sem hann deildi með föður sínum. Matt Serra æfði Kung-Fu á unga aldri og ólympíska glímu á skólaárum sínum. Pabbi hans kynnti honum svo fyrir brasilísku jiu-jitsu þegar Serra var 18 ára gamall. Serra fékk svarta beltið í BJJ frá Renzo Gracie árið 2000 en þá var hann fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að fá svarta beltið frá Renzo. Þess má geta að Gunnar Nelson fékk einnig svarta beltið sitt í BJJ frá Renzo.

Síðar skipti Serra yfir í MMA og tók sinn fyrsta bardaga í apríl 1999. Hann hélt þó áfram að keppa á sterkum glímumótum og hafnaði til að mynda í 2. sæti á ADCC árið 2001 sem er frábært afrek.

Einkenni

Glíman var alltaf hans leið til sigurs en hann var líka með kraft í höndunum. Hann rotaði bæði Frank Trigg og Georges St. Pierre en var kannski ekki jafn tæknilegur standandi og í gólfinu. Serra kláraði fimm bardaga með uppgjafartaki og var alltaf hættulegur í gólfinu. Þegar Serra var í veltivigt var hann nánast alltaf talsvert lægri en andstæðingurinn enda bara 168 cm á hæð og átti oft erfitt með að loka fjarlægðinni en bætti það upp með líkamlegum styrk sínum.

matt serra ufc beltiStærstu sigrar

Það fer ekki á milli máli hver stærsti sigur Matt Serra er á ferlinum. Matt Serra varð óvænt veltivigtarmeistari er hann rotaði Georges St. Pierre í apríl 2007. Enn þann dag í dag er sá sigur einn sá óvæntasti í sögu MMA. Serra var þekktastur fyrir færni sína í gólfinu og því kom það sérstaklega mikið á óvart að hann skyldi hafa rotað meistarann. Serra mun alltaf geta lifað á þessu og verður þessi sigur lengi í minnum hafður.

Verstu töp

Serra var með sjö töp á ferlinum en tvö töp standa helst upp úr. Georges St. Pierre kom svo sannarlega tvíefldur til leiks er þeir Serra mættust aftur og þar gerðist ekkert óvænt. GSP lúskraði á Matt Serra þangað til dómarinn hafði séð nóg og átti Serra litla möguleika gegn besta veltivigtarmanni sögunnar.

Serra tapaði einnig fyrir Shonie Carter eftir „spinning backfist“ en Serra var að vinna bardagann þangað til hann var rotaður. Tapið var kannski ekkert sérstaklega slæmt en Serra er þó reglulega minntur á það af vinum sínum.

Það má heldur ekki gleyma ríg hans við Matt Hughes. Þeim líkar ennþá illa við hvorn annan og vildu helst fá að útkljá málin í búrinu í dag. Serra tapaði fyrir Matt Hughes í frábærum bardaga á UFC 98 og má kannski segja að það sé versta tapið í huga Serra enda er honum meinilla við Hughes.

Fáir vita

Serra langaði alltaf að verða landgönguliði í bandaríska hernum og setti hann snemma stefnuna þangað. Þegar hann var 17 ára lenti hann hins vegar í götuslagsmálum og var fundinn sekur um alvarlega líkamsárás. Þar með var herdraumurinn úti og var Serra hálf stefnulaus í lífinu. Á þeim tíma hafði pabbi hans nýlega byrjað í brasilísku jiu-jitsu. Hann hvatti son sinn til að æfa með sér hjá Craig Kukuk og í gegnum Kukuk hitti hann Renzo Gracie.

matt serra today

Hvar er hann í dag?

Matt Serra er með tvo BJJ skóla í New York og kennir þar. Serra er með marga bardagamenn á sínum snærum eins og Chris Weidman, Aljamain Sterling og Al Iaquinta en hann og Ray Longo mynda hið frábæra tvíeyki Serra-Longo. Hann kemur einnig fyrir í þáttum eins og Dana White: Lookin’ for a Fight og virðist almennt hafa það nokkuð gott í dag.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is

-Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ)
-BS í sálfræði
-Lýsi UFC á Stöð 2 Sport
-MMA fíkill
Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply