spot_img
Friday, December 27, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Blachowicz vs. Santos

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Blachowicz vs. Santos

UFC er með sitt fyrsta bardagakvöld í Tékklandi í kvöld. Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Jan Blachowicz og Thiago Santos en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagakvöldið.

Tvær sleggjur

Bardagakvöldið er hreint út sagt ekki upp á marga fiska en aðalbardagi kvöldsins er samt geggjaður. Þeir Jan Blachowicz og Thiago Santos eiga ekki flekklausan feril í MMA en hafa verið á góðu skriði undanfarið. Eftir að hafa verið í miklu miðjumoði hefur Blackowicz skyndilega unnið fjóra bardaga í röð og sýnt mjög skemmtileg tilþrif. Thiago Santos er með 10 sigra eftir rothögg í 12 sigrum í UFC og hefur litið vel út eftir að hann fór upp í léttþungavigt. Síðasti bardagi hans gegn Jimi Manuwa var rosalegur og hvetjum við alla til að rifja hann upp snöggvast. Þetta gæti því orðið mjög skemmtilegt stríð í léttþungavigt.

Engin miskunn fyrir þá gömlu

Petr ‘No Mercy’ Yan er einn af þeim allra efnilegustu í bantamvigt UFC í dag. Þessi 26 ára fyrrum bantamvigtarmeistari ACB hefur unnið alla þrjá bardaga sína í UFC, klárað tvo af þeim og ekki lent í neinum teljandi vandræðum. Ef fram heldur sem horfir verður hann kominn í titilbaráttuna innan skamms. Hann mætir John Dodson sem er orðinn 34 ára gamall og hefur verið skuggalega leiðinlegur í síðustu fimm bardögum sínum. Dodson verður samt áhugavert próf fyrir Yan og spurning hvernig sá eldri stendur sig gegn þeim yngri.

Góður tími

Eins og áður segir fer bardagakvöldið fram í Prag í Tékklandi og eru bardagarnir því á besta tíma hér heima. Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl. 16:00 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 19:00 og eru allir bardagarnir aðgengilegir á Fight Pass rás UFC á Íslandi.

Nóg af efnilegum bardagamönnum

Einhvers staðar þurfa menn að byrja þegar þeir fá samning við UFC og er það oft raunin um þessi minni bardagakvöld. Það eru á kvöldinu nokkrir bardagamenn sem eru efnilegir og að taka sín fyrstu skref í UFC sem gæti verið gaman að fylgjast með í framtíðinni. Einn af þeim er Ismail Naurdiev (17-2) sem er 22 ára gamall Austurríkismaðu og hefur unnið 11 bardaga með rothöggi. Hann fær reyndar erfitt verkefni í kvöld en hann tekur á móti Michel Prazeres sem hefur unnið átta bardaga í röð í UFC.

Damir Ismagulov (17-1) berst sinn 2. bardaga í UFC í kvöld þegar hann tekur á móti Joel Alvarez (15-1). Báðir eru á besta aldri en Alvarez hefur aldrei farið allar loturnar í 16 bardögum og klárað 14 bardaga með uppgjafartaki.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular