spot_img
Sunday, January 5, 2025
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Cejudo vs. Dillashaw

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Cejudo vs. Dillashaw

Fyrsta bardagakvöld ársins í UFC fer fram í nótt í Brooklyn í New York. Þetta er jafnframt fyrsta bardagakvöld UFC á ESPN rásinni en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagakvöldið.

Fjórði tvöfaldi meistarinn?

Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Henry Cejudo og T.J. Dillashaw um fluguvigtartitil UFC. Þetta verður fyrsta titilvörn Cejudo síðan hann sigraði Demetrious Johnson í fyrra. Dillashaw er að fara niður í fluguvigt og var niðurskurðurinn gríðarlega vel undirbúinn. Það á þó enn eftir að koma í ljós hvernig hann getur beitt sér í kvöld í búrinu.

Í fyrra fengum við tvívegis að sjá nýja tvöfalda meistara – fyrst þegar Daniel Cormier vann Stipe Miocic og svo þegar Amanda Nunes vann Cris ‘Cyborg’ Justino. Dillashaw getur orðið sá fjórði í UFC til að vera meistari í tveimur flokkum á sama tíma en hann er sá fyrsti til að fara niður um flokk til að taka annað belti. Hingað til hefur léttari meistarinn alltaf unnið í þessum ofurbardögum á milli tveggja meistara og ætti þetta að verða virkilega flottur bardagi. Dillashaw er einn sá allra besti í heiminum og Cejudo vann síðast einn besta bardagamann sögunnar. Fáum við nýjan fluguvigtarmeistara í kvöld?

Sá umdeildi berst í fyrsta sinn í UFC

Greg Hardy er einn umdeildasti bardagamaður í UFC í dag. Hann á ansi vafasama fortíð að baki tengt heimilisofbeldi og vörslu fíkniefna en Dana White hefur sagt að allir eigi skilið annað tækifæri. Að margra mati hefur Hardy ekki sýnt neina iðrun þegar málið hefur borið á góma í viðtölum. Hann hefur þó sagt að hann sé stöðugt að vinna í því að verða betri maður og kemur afar vel fyrir í öllum viðtölum. Vafasöm fortíð hans breytir því þó ekki að hér er þrítugur þungavigtarmaður á ferð sem er íþróttamaður í heimsklassa og það er eins sjaldgæft og það verður. Allir þrír atvinnubardagar hans hafa samanlagt staðið yfir í rúmar tvær mínútur og hefur hann klárað þá alla á undir mínútu.

Þrátt fyrir að vera bara 3-0 sem atvinnumaður er Hardy í næstsíðasta bardaga kvöldsins sem er einnig umdeilt. Það verður því verulega áhugavert að sjá hann í kvöld en þá mætir hann Allen Crowder sem tapaði sínum fyrsta bardaga í UFC.

Besti veiðimaðurinn í UFC

Einn af mörgum spennandi bardögum á kvöldinu er viðureign Gregor Gillespie og Yancy Medeiros. Gillespie er 5-0 á ferli sínum í UFC og hefur klárað fjóra af þeim. Hann hefur litið hrikalega vel út í búrinu og reynt að koma sér á framfæri með því að kalla sig besta veiðimanninn í UFC. Ekki er um að ræða einhvers konar líkingarmál þar sem hann er að „veiða andstæðinga sína í búrinu“ heldur elskar hann bara stangveiði og segist vera besti veiðimaðurinn í UFC. Andstæðingur hans í kvöld er þekktur fyrir að gefa ekkert eftir og ætti þetta að verða skemmtilegur bardagi.

Donald Cerrone aftur í léttvigt

Kúrekinn Donald Cerrone er aftur kominn niður í léttvigt eftir að hafa verið í veltivigt í þrjú ár. Hinn 35 ára gamli Cerrone hefur dalað undanfarin ár en nú er hann með augun á léttvigtarbeltinu. Cerrone telur að sigur á Alexander Hernandez tryggi honum bardaga gegn Conor McGregor og svo mögulega titilbardaga í kjölfarið með sigri á Conor. Hernandez er bara 2-0 á ferli sínum í UFC en hefur litið hrikalega vel út og er sigurstranglegri hjá veðbönkum. Bardagi sem þú ættir ekki að missa af!

Joanne Calderwood á siglingu?

Fluguvigt kvenna er nýjasti flokkurinn í UFC og því í stöðugri þróun. Joanne Calderwood hafði lengi átt í erfiðleikum með að ná 115 punda strávigtinni og er nú að njóta þess að vera í nýjum þyngdarflokki. Hún vann sinn fyrsta bardaga í fluguvigtinni í ágúst í fyrra og mætir nú Ariane Lipski í nótt. Þrátt fyrir að Lipski hafi aldrei áður barist í UFC er hún sigurstranglegri hjá veðbönkum en Calderwood hefur sagt að hún hafi aldrei verið á betri stað í lífinu og einmitt nú. Þá er hún einnig hæstánægð með minni niðurskurði, hefur fundið sig vel hjá nýjum þjálfara og gæti komist á smá siglingu í nýjum flokki. Sigurvegarinn hér fær allavegna gott tækifæri til að komast í góða stöðu í fluguvigtinni.

Ekki gleyma

Það eru margir mjög áhugaverðir bardagar á kvöldinu sem má ekki gleyma. Joseph Benavidez mætir Dustin Ortiz í fluguvigt og gæti sigurvegarinn hér fengið titilbardaga. Paige VanZant og Rachel Ostovich mætast í fluguvigtinni og er engin tilviljun að þessar tvær berjast á fyrsta ESPN bardagakvöldinu. Að lokum má ekki gleyma Geoff Neal sem hefur komið sterkur inn í UFC en hann mætir Belal Muhammad í veltivigt.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl. 23 í kvöld en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 3 í nótt.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular