UFC er með skemmtilegt bardagakvöld í kvöld í Boise, Idaho. Á bardagakvöldinu má sjá marga áhugaverða bardaga sem gætu orðið þrælskemmtilegir.
Nýliði gegn Junior dos Santos
Junior dos Santos var ranglega sendur í keppnisbann af USADA í fyrra en eftir nokkra mánaða rannsókn var hann hreinsaður af sök. Hann getur því aftur snúið til keppni um helgina og mætir þá Blagoy Ivanov í aðalbardaga kvöldsins. Þetta verður frumraun Ivanov í UFC en hann hefur mikla reynslu úr öðrum bardagasamtökum og hefur aðeins tapað einum bardaga. Þess má geta að bardagi hans gegn Ilir Latifi var dæmdur ógildur þar sem hringurinn brotnaði! Hans eina tap var gegn Alexander Volkov sem hefur sýnt sig sem einn af þeim betri í þungavigt UFC í dag. Ivanov gæti því verið áhugaverð viðbót við þungavigtina þrátt fyrir að líta út eins og feitur Artem Lobov. Ivanov er bara 31 árs og þarf að komast í gegnum hinn reynda Junior dos Santos til að skapa sér nafn í þungavigt UFC.
Fjaðurvigtin sýnir mátt sinn
Einn allra skemmtilegasti þyngdarflokkurinn í UFC í dag er fjaðurvigtin. Á kvöldinu fáum við frábæran bardaga í fjaðurvigt sem er af einhverjum ástæðum hluti af upphitunarbardögunum. Darren Elkins hefur nokkuð óvænt unnið sex bardaga í röð í þessum sterka þyngdarflokki. Í kvöld mætir hann hinum efnilega Alexander Volkanovski frá Ástralíu. Volkanovski hefur unnið alla fjóra bardaga sína í UFC en þetta verður hans erfiðasta prófraun hingað til.
Endurkoma Chad Mendes
Chad Mendes hefur ekkert barist síðan hann féll á lyfjaprófi sumarið 2016. Lyfjaprófið var tekið utan keppnis og fékk Mendes tveggja ára bann en Mendes hélt því fram að ólöglega efnið hefði komið úr húðkremi. Nú hefur hann afplánað bannið og mætir Myles Jury í kvöld. Mendes hefur tapað þremur af síðustu fjórum bardögum sínum gegn sterkum andstæðingum (Jose Aldo, Frankie Edgar og Conor McGregor) og þarf nauðsynlega að fá sigur eftir erfið ár.
Kötturinn berst aftur!
Það telst til tíðinda þegar Cat Zingano berst og hvað þá tvisvar á sama ári! Cat Zingano hefur aðeins einu sinni á ferlinum barist oftar en einu sinni á ári. Það gerðist síðast 2010 en Zingano hefur verið óheppin með meiðsli undanfarin ár. Eftir tap gegn Ketlan Vieira í mars mun Zingano berjast aftur í kvöld og þá gegn Marion Reneau. Það sárvantar áskorendur í bantamvigt kvenna og er þetta því mikilvægur bardagi fyrir þyngdarflokkinn. Zingano hefur tapað þremur bardögum í röð og er langt frá titilbardaga eins og er en á sama tíma hefur Renaeau nokkuð hljóðlátlega unnið þrjá af síðustu fjórum bardögum sínum og gert eitt jafntefli.
Sage Northcutt tilraunin heldur áfram
Sage Northcutt er umdeildur bardagamaður enda fær hann betur borgað en margir talsvert betri bardagamenn í UFC og er enn ungur og óreyndur. Þess má geta að Northcutt fékk meira borgað fyrir tapið sitt gegn Mickey Gall heldur en Rory MacDonald fékk borgað fyrir tapið gegn Robbie Lawler. Það er þó ekki honum að kenna en upphæðirnar sem hann fær pirra marga og hlakkar í þeim sömu þegar Northcutt misstígur sig. Hann hefur núna unnið tvo bardaga í röð og virðist búinn að setjast að hjá Team Alpha Male. Hann mætir Zak Ottow í kvöld í veltivigt en þess má geta að bæði töp Northcutt hafa komið í veltivigt.
Ekki gleyma
Það eru fullt af mjög skemmtilegum bardögum á kvöldinu. Þeir Niko Price og Randy Brown eigast við í spennandi bardaga í veltivigt. Í fjaðurvigt fáum við Dennis Bermudez og Rick Glenn sem ætti að verða frábær bardagi og þá er alltaf gaman að sjá Eddie Wineland en hann mætir Alejandro Perez. Að lokum má ekki gleyma að frændi Khabib Nurmagomedov, Said Nurmagomedov (11-1), berst sinn fyrsta bardaga í UFC á morgun þegar hann mætir Justin Scoggins. Þetta er því einfaldlega frábært kvöld fyrir MMA nördana.
Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl. 22:30 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 2. Allir bardagarnir eru aðgengilegir á Fight Pass rás UFC.