spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Gustafsson vs. Smith

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Gustafsson vs. Smith

UFC heimsækir Stokkhólm um helgina þar sem barist verður í Ericsson Globe höllinni. Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Alexander Gustafsson og Anthony Smith en hér eru nokkrar ástæður til að kíkja á bardagakvöldið.

Tveir topp bardagamenn berjast upp á ekki neitt

Þeir Alexander Gustafsson og Anthony Smith mætast í aðalbardaga kvöldsins og er eiginlega ekkert merkilegt undir í þeim bardaga en það er líka alveg í góðu lagi. Hér eru tveir topp 5 bardagamenn í léttþungavigtinni sem báðir hafa tapað nýlega fyrir ríkjandi meistara, Jon Jones, og eru því ekki nálægt titilbardaga eins og er. Sigurvegarinn hér fær ekki titilbardaga og verður sennilega ekki einum bardaga frá titilbardaga heldur. Það þýðir samt ekki að þetta verði ómerkilegur bardagi en báðir eru frábærir bardagamenn þó þeir geti ekki unnið Jon Jones. Í dag virðist leiðin að titilbardaga vera löng fyrir báða. Það má samt ekki gleyma því að meistarinn Jonathan Dwight Jones er óþekkur strákur og hefur gert sín mistök.

Austurríkismaður aftur í röðina eða skref að toppnum?

Alexander Rakic mætir Jimi Manuwa í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Rakic er minna þekktur en hann hefur unnið alla þrjá bardaga sína í UFC og er bara 27 ára sem er enginn aldur í léttþungavigt. Jimi Manuwa hefur aftur á móti tapað síðustu þremur bardögum sínum og er á niðurleið. Hinn 39 ára gamli Manuwa hefur samt bara tapað fyrir topp bardagamönnum og spurning hvort Rakic sé kominn á þann stað eða ekki. Bardaginn gegn Manuwa mun í það minnsta segja okkur mikið um hvar hinn austurríski Rakic stendur í dag.

Árleg mæting Makwan Amirkhani

Finninn Makwan Amirkhani hefur bara tekið einn bardaga á ári á síðustu þremur árum. Um helgina er komið að hinum árlega bardaga hans en núna segist Makwan vera einbeittur á að berjast oftar. Makwan hefur samt ekki setið auðum höndum en hann hefur tekið sex áhugamannabardaga í boxi á síðustu 12 mánuðum og einbeitt sér að hnefaleikum. Það verður því gaman að sjá hann á laugardaginn gegn Chris Fishgold.

Þægileg tímasetning

Þar sem bardagakvöldið er í Evrópu er þetta á ansi þægilegum tíma hér á Íslandi. Fyrsti bardagi kvöldsins (eða dagsins réttara sagt) hefst kl. 14:00 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 17:00. Aðalhluti bardagakvöldsins verður á Stöð 2 Sport en alla bardagana er hægt að sjá á Fight Pass.

Ekki gleyma

Það eru fullt af áhugaverðum bardagamönnum sem berjast á kvöldinu. Danski Bosníumaðurinn Damir Hadzovic mætir Christos Giagos en Damir hefur unnið tvo bardaga í röð. Daniel Teymur hefur tapað öllum þremur bardögum sínum og hefur alltaf boðið upp á mikla skemmtun en hann mætir nýliðanum Sung Bin Jo. Það verður síðan áhugavert að sjá Rostem Akman en hann berst sinn fyrsta bardaga í UFC á morgun. Akman hefur komið hingað til Íslands til að æfa og vann Björn Þorleif Þorleifsson á Evrópumótinu í MMA árið 2016.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular