spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC um helgina

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC um helgina

Nú um helgina eru tvö UFC bardagakvöld á dagskrá. Það fyrra fer fram í kvöld í Las Vegas en það seinna í Ástralíu á morgun, laugardag. Hér eru nokkrar ástæður til að kíkja á bardagakvöldin.

Stórt skref í átt að titlinum

Í aðalbardaganum á TUF Finale í Las Vegas í kvöld mætast þeir Kamaru Usman og Rafael dos Anjos. Usman er enn ósigraður síðan hann kom í UFC og getur með sigri á Rafael dos Anjos komist ansi nálægt titilbardaga. Usman er kannski ekki sá skemmtilegasti en það er erfitt að neita manni titilbardaga eftir níu sigra í röð. Colby Covington er samt sennilega á undan honum í röðinni og þá mun Ben Askren líklegast flækjast fyrir með sigri á Robbie Lawler í janúar. Þó Usman sé sigurstranglegri verður bardaginn gegn Rafael dos Anjos enginn hægðarleikur. Dos Anjos er grjótharður og fyrrum léttvigtarmeistari þó hans bestu ár séu sennilega að baki. Þetta verður spennandi bardagi og gæti Usman tekið stórt skref að titlinum með sigri.

Skemmtilegur glímuslagur

Á TUF Finale mætast þeir Pedro Munhoz og Bryan Caraway. Báðir eru fantagóðir glímumenn og gæti þetta orðið mjög skemmtilegur glímuslagur. Munhoz hefur unnið sex af síðustu sjö bardögum sínum og vaxið sem bardagamaður á undanförnum árum. Á sama tíma hefur Caraway aðeins fallið í skuggann eftir að hafa lítið barist vegna meiðsla. Caraway hefur samt oft sýnt hve sterkur glímumaður hann er og Munhoz líka. Mögulega gæti þetta verið hörku glímubardagi sem skemmtilegt verður að sjá.

Ný Shevchenko systir

Valentina Shevchenko er bardagaáhugamönnum vel kunnug. Eldri systir hennar, Antonia Shevchenko, berst sinn fyrsta bardaga í UFC í kvöld. Síðast sáum við hana í áskorendaseríu Dana White þar sem hún kláraði bardaga sinn með tæknilegu rothöggi í 2. lotu. Líkt og yngri systirin er hún með tugi bardaga í Muay Thai og verður gaman að sjá hana í UFC.

Ferskt blóð í þungavigtinni eða bara það sama gamla?

Seinna bardagakvöld UFC um helgina fer fram í Ástralíu á sunnudagsmorgni í Ástralíu (laugardagskvöld hér heima). Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Junior dos Santos og Tai Tuivasa. Junior dos Santos hefur verið stöðugur sem svona topp 5 bardagamaður í þungavigtinni en ekki náð að vinna tvo bardaga í röð síðan árið 2012. Auk þess er hann að taka sinn annan bardaga á þessu ári en það hefur ekki gerst síðan árið 2013 en þá var einmitt síðasti bardaginn sem hann náði að klára. Núna mætir hann Tai Tuivasa sem hefur verið skemmtileg viðbót við þungavigtina. Tuivasa er hress og virðist ekki taka þessu neitt alltof alvarlega. Núna fær hann ansi verðugt próf en með sigri kemur hann með ferska vinda í þungavigtina.

Síðasti bardagi Mark Hunt í UFC

Mark Hunt mætir Justin Willis á heimavelli á morgun og er þetta síðasti bardaginn hans á samningnum við UFC. Hunt hefur ekki óskað eftir nýjum samningi og UFC hefur ekki boðið honum nýjan samning. Báðir aðilar virðast því sáttir með að Hunt fari sína leið enda hefur Hunt gagnrýnt UFC margoft opinberlega og er meira að segja að lögsækja UFC. Hann fær Justin Willis í hálfgerðum óformlegum kveðjubardaga og er það bardagi sem Hunt getur vel unnið eftir „walk-away“ rothögg.

Ekki gleyma

Fyrir utan fyrrnefnda bardaga eru fullt af öðrum áhugaverðum bardögum. Gamli góði Shogun mætir Tyson Pedro og vonandi endar þetta ekki of illa fyrir þann gamla. Tim Means er alltaf skemmtilegur en hann mætir Ricky Rainey í kvöld. Þá er Jake Matthews sömuleiðis skemmtilegur en hann fær Tony Martin og gæti það verið skemmtilegt. Að lokum má nefna að Alexey Kunchenko mætir gamla brýninu Yushin Okami í Ástralíu og getur haldið áfram að klífa upp metorðastigann með sigri.

TUF Finale: Hefst kl. 23:30 á föstudagskvöld en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 3

UFC Fight Night: Hefst kl. 23:00 á laugardagskvöld en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 3

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular