UFC 212 fer fram í kvöld í Ríó í Brasilíu. Þeir Jose Aldo og Max Holloway mætast í aðalbardaga kvöldsins en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á kvöldið.
Beltin sameinuð
Aðalbardagi kvöldsins er einn sá besti sem UFC hefur boðið upp á þessu ári. Þarna mætast topp bardagamenn og náðu þeir báðir vigt í gær og því fátt sem kemur í veg fyrir bardaga þeirra í kvöld. Jose Aldo er „alvöru“ meistarinn í fjaðurvigtinni en Max Holloway bráðabirgðarmeistari og verða beltin því sameinuð á morgun. Það er samt öllum nákvæmlega sama um þetta bráðabirgðarbelti Holloway og verður ágætt að losna við enn einn bráðabirgðartitilinn (þangað til einhver meiðist). Hvað sem öllum beltum skiptir verður þetta eflaust frábær og æsispennandi bardagi.
Hver er sú næstbesta?
Í næstsíðasta bardaga kvöldsins mætast þær Claudia Gadelha og Karolina Kowalkiewicz. Einu töp beggja voru gegn Joanna Jedrzejczyk og má í raun segja að þetta sé bardagi upp á hver sé sú næst besta í strávigtinni. Gadelha er sigurstranglegri en Kowalkiewicz hefur oft verið vanmetin og gæti komið á óvart eins og hún gerði gegn Rose Namajunas. Einn besti bardaginn sem strávigtin hefur upp á að bjóða.
Gamlir rotast?
Fyrrum TRT notendurnir Vitor Belfort og Nate Marquardt mætast í bardaga gömlu kallanna. Hinn fertugi Belfort virðist vera hættur við að hætta í UFC og langar að halda áfram. Honum hefur hins vegar gengið illa undanfarið og tapað fjórum af síðustu fimm bardögum sínum (öll töpin eftir rothögg) en á fínan séns gegn Nate ‘The Great’ Marquardt. Ferill Marquardt virðist engann endi ætla að taka en hinn 38 ára Marquardt er með sjö töp í síðustu tíu bardögum. Þetta er fínt tækifæri fyrir Belfort að ná rothöggi á heimavelli í Brasilíu.
Kemst Borrachinha út fyrir 1. lotu?
Paulo Borrachinha er nafn sem fæstir kannast við. Hann er 9-0 en allir bardagarnir hafa klárast í 1. lotu. Átta sigrar eru eftir rothögg og þykir hann minna á Vitor Belfort – Brassi sem klárar bardagana snemma og lítur út fyrir að taka inn vítamínin sín. Andstæðingur hans er sjálfur mikill rotari, Oluwale Bamgbose, en allir sex sigrar hans hafa endað með rothöggi. Þetta er 2. bardaginn á aðalhluta bardagakvöldsins og gæti orðið þrælskemmtilegur.
Frumraun Marlon Moraes í UFC
Einn besti bantamvigtarmaður veraldar utan UFC, Marlon Moraes, er nú kominn í UFC. Í kvöld fær hann tækifæri til að sýna að hann sé líka einn af þeim bestu í bantamvigtinni í UFC. Moraes fær verðugan andstæðing í fraumraun sinni en hann mætir Raphael Assuncao en Assuncao er með átta sigra í síðustu níu viðureignum sínum í UFC. Með sigri getur Moraes stimplað sig inn í toppbaráttuna í bantamvigtinni og mun þessi bardagi segja okkur mikið um hans hæfileika.
Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 22:30 á Fight Pass rás UFC en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 2 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.