Í kvöld fer fram eitt stærsta bardagakvöld ársins þegar UFC 217 fer fram. Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Georges St. Pierre og Michael Bisping en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagakvöldið.
Síðasti bardagi goðsagnar?
Georges St. Pierre snýr aftur í kvöld eftir fjögurra ára fjarveru. Margt hefur breyst frá því hann barðist síðast og verður afar forvitnilegt að sjá hvernig hann kemur til leiks í kvöld. Við höfum ekki hugmynd um hvernig hann mun líta út gegn Michael Bisping eða hversu góður hann er ennþá. Ef hann tapar mun hann leggja hanskana á hilluna fyrir fullt og allt svo hugsanlega verður þetta síðasti bardagi ferilsins hjá þessari goðsögn.
Tveggja ára sápuópera gerð upp
Í næstsíðasta bardaga kvöldsins mætast þeir Cody Garbrandt og T.J. Dillashaw. Þetta eru tveir magnaðir bardagamenn sem munu klárlega bjóða upp á flugeldasýningu í búrinu. Báðir eru einfaldlega stórkostlegir bardagamenn á toppi ferilsins og verður afar erfitt að segja til um hvor fari með sigur af hólmi. Þetta gæti orðið einn besti bardagi ársins og ríkir auðvitað mikil spenna fyrir bardaga þeirra. Þessir tveir hafa eldað saman grátt silfur í dágóðan tíma eða frá því Dillashaw ákvað að yfirgefa Team Alpha Male á sínum tíma. Síðan þá hafa fyrrum liðsfélagar hans notað hvert tækifæri til að hrauna yfir Dillashaw og getur Garbrandt ekki beðið eftir því að fá að taka aðeins í Dillashaw. Það verður gaman að sjá þá eigast loksins við og einnig verður ágætt að leyfa þeim að útkljá sín mál loksins.
Jafnar Joanna met Rondu?
Strávigtarmeistari kvenna, Joanna Jedrzejczyk, getur jafnað met Rondu Rousey yfir flestar titilvarnir í kvennaflokkunum í UFC. Jedrzejczyk er með fimm titilvarnir og getur jafnað metið með sigri á Rose Namajunas í kvöld. Jedrzejczyk er afar vinsæl en það er Namajunas líka. Áskorandinn sýndi engin svipbrigði er þær stóðu andspænis hvor annarri fyrr í vikunni og lét meistarann ekki að ógna sér.
Karate strákurinn aftur á flug?
Stephen ‘Wonderboy’ Thompson mætir Jorge Masvidal í enn einum frábæra bardaganum á þessu kvöldi. Thompson fékk tvo sénsa gegn ríkjandi meistara Tyron Woodley en mistókst í bæði skiptin. Fyrir bardagana gegn Woodley hafði Thompson unnið sjö bardaga í röð og spurning hvort hann nái aftur sömu hæðum. Masvidal hefur samt aldrei verið betri og verður langt í frá auðveld bráð fyrir karatestrákinn Thompson. Þessi verður áhugaverður!
Nær Johny Hendricks að rétta úr kútnum?
Sagan endalausa af vandræðum Johny Hendricks heldur bara áfram. Hann hefur tapað fjórum af síðustu fimm bardögum sínum, nokkrum sinnum mistekist að ná vigt og einfaldlega verið í tómu rugli. Hann náði þó vigt í gær og er nú farinn að æfa hjá Jackson-Winkeljohn. Það er nú eða aldrei fyrir Johny Hendricks ef hann ætlar ekki að falla í gleymskunnar dá. Hann mætir efnilegum bardagamanni frá Brasilíu í kvöld sem er með níu rothögg í tíu sigrum. Ef Hendricks tapar enn einu sinni gæti hann jafnvel fengið reisupassann.
Ekki gleyma
Fyrir utan fyrrnefnda bardaga er heill hellingur af flottum bardögum. Joe Duffy mætir James Vick í geggjuðum léttvigtarslag en báðir hafa verið að góðu skriði í léttvigt UFC. Dana White: Looking for a Fight bardagamennirnir Mickey Gall og Randy Brown mætast einnig og ætti það að vera skemmtilegur bardagi.