Á sunnudaginn fer fram nokkuð gott UFC kvöld í Texas. Kvöldið býður upp á nokkra spennandi bardaga sem er alveg þess virði að kíkja á.
Upp eða niður
Goðsögnin Donald ‘Cowboy’ Cerrone hefur tapað þremur í röð en hann mætir Yancy Medeiros sem hefur unnið þrjá í röð. Spurningin er því hvort það verði viðsnúningur hjá báðum eða hvort þeir haldi áfram á sinni braut í sitthvora átt. Meideiros hefur náð sér í nokkra góða sigra og vinskapur hans við Max Holloway virðist hafa góð áhrif. Við gætum mögulega séð nýja stjörnu í veltivigt eða einfaldlega fengið áminningu um hversu góður Cerrone er.
Topp tíu í þungavigt
Hinn skemmtilegi Derrick ‘The Black Beast’ Lewis snýr aftur eftir tap gegn Mark Hunt í júní á síðast ári. Andstæðingurinn að þessu sinni er Marcin Tybura frá Póllandi sem á svipaðan hátt hikstaði í sínum síðasta bardaga gegn Fabício Werdum en leit vel út þar áður. Allt getur gerst í þessum bardaga en það er nokkuð ljóst að bombum verður varpað og annar færist upp innan topp tíu á styrktarlista UFC.
Fjör í léttvigt
James Vick fær ekki mikla athygli en hann hefur unnið átta af níu UFC bardögum sínum en hans eina tap á ferlinum var gegn Beneil Dariush. Nú gæti tími Vick verið kominn en til að stöðva hann er mættur Francisco Trinaldo sem hefur sjálfur gert mjög gott mót í léttvigt undanfarin ár. Það verður spennandi að sjá hver nælir sér í sigur um helgina en bardaginn virðist nokkuð jafn á pappírunum.
Önnur endurkoma Thiago Alves
Það virðist sem að Thiago Alves snúi aftur í „comeback“ bardaga á hverju ári. Hann leit vel út í apríl á síðasta ári þar sem hann sigraði Patrick Cóte. Nú viljum við sjá Alves berjast nokkrum sinnum á árinu en hann byrjar um helgina gegn Curtis Millendur sem er nýr í UFC en hefur unnið síðstu sex bardaga sína utan UFC.