spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Dos Anjos vs....

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Dos Anjos vs. Ferguson

tuf-3-finale-dos-anjos-vs-ferguson-poster-750Á laugardag fer fram UFC on Fox: Dos Anjos vs. Ferguson í Mexíkó. Það eru nokkrir þrælspennandi bardagar á dagskrá en hér eru nokkrar ástæður til að fylgjast vel með.

  • Tryggir ‘El Cucuy’ sér titilbardaga? Tony Ferguson er jafn leiðinlegur karakter og hann er spennandi bardagakappi. Hann hefur birt nokkur vandræðaleg myndbönd af æfingum sínum í aðdraganda bardagans eins og þetta myndband þar sem hann sést með buff og sólgleraugu að dunda sér við að sparka gat á boxpúða sem er augljóslega búið að skera gat á. Það breytir því ekki að bardagar ‘El Cucuy’ eru nánast alltaf góð skemmtun. Hann hefur sem dæmi fengið bónus í síðustu fjórum bardögum fyrir annað hvort besta bardaga kvöldsins eða bestu frammistöðu kvöldsins. Þá hefur hann ekki tapað síðan 2012 og má ætla að hann fái næsta titilbardaga í léttvigtinni ef honum tekst að sigra Rafael dos Anjos.
  • Tekst dos Anjos að komast aftur á sigurbrautina? Rafael dos Anjos leit út fyrir að ætla að einoka léttvigtartitilinn eftir að hann hirti beltið af Pettis í mars 2015. Það var mikil spenna fyrir fyrstu titilvörnina gegn Donald Cerrone, sem hafði þá sigrað átta bardaga í röð, en dos Anjos fór létt með kúrekann. Það kom því mörgum á óvart þegar hann tapaði titlinum gegn Eddie Alvarez fyrr á þessu ári. Gegn Ferguson mun dos Anjos fá tækifæri til að rétta úr kútnum og taka skref í átt að því að endurheimta léttvigtarbeltið.
  • BJJ undrið Marcin Held keppir í fyrsta sinn í UFC: Held er aðeins 24 ára en hefur þrátt fyrir það stimplað sig inn sem einn allra besti BJJ keppandinn í léttvigtinni. Hann varð Evrópumeistari fjólublábeltinga í BJJ aðeins 18 ára gamall árið 2010 og hefur keppt 26 sinnum í MMA þrátt fyrir ungan aldur. Hann er hrifinn af fótalásum og er stíllinn hans ekki ósvipaður þeim sem sést hefur frá Ryan Hall – dýfir sér hiklaust á fótalása í stað þess að reyna við hefðbundnar fellur. Andstæðingur hans verður hinn þaulvani Diego Sanchez sem hefur aldrei tapað með uppgjafartaki. Spurningin er hvort Marcin Held verði sá fyrsti til að sigra ‘The Dream’ með þeim hætti.
  • YES, YES, YES! Diego Sanchez þarf vart að kynna en þessi skrautlegi karakter verður andstæðingur Held annað kvöld. Sanchez virðist verða villtari í tækni sinni með hverju árinu sem líður og var hann nú aldrei sá tæknilegasti fyrir. Þetta skilar sér þó oftast í spennandi bardögum. Sanchez var áður ‘The Nightmare’ en tók síðan U-beygju og breytti nafninu í ‘The Dream’. Sanchez gengur oftast inn öskrandi möntruna ‘YES, YES, YES!’. Fyrir þá sem vilja vera eins og Diego er hægt að gera „The YES! Cartwheel“ en það er hans eigin uppfinning. Kennslumyndband má sjá hér fyrir neðan.
  • Geggjaður léttvigtarslagur: Annar bardaginn á aðalhluta bardagakvöldsins er viðureign Beneil Dariush og Rashid Magomedov í léttvigt. Báðum er þeim spáð mikilli velgengni í UFC en Dariush er 7-2 í léttvigtinni á meðan Magomedov er 3-0. Magomedov vann síðast Gilbert Burns og gæti þetta orðið einn besti bardagi kvöldsins.
  • Bjartasta vonin í strávigtinni: Alexa Grasso er 23 ára mexíkósk stelpa sem keppir sinn fyrsta bardaga í UFC annað kvöld. Þá mætir hún Heather Jo-Clark í strávigt en margir búast við að Grasso verði næsta stóra nafnið í strávigtinni. Hún hefur unnið alla átta bardaga sína og þar af fjóra með rothöggi. Grasso vegnaði vel í Invicta FC og verður gaman að sjá hvort hún haldi áfram á sömu braut í UFC.
  • Ekki gleyma: Eins og sjá má eru fullt af spennandi bardögum um helgina. Auk fyrrgreindra bardaga má ekki gleyma viðureign Ricardo Lamas og Charles Oliveira í fjaðurvigt. Oliveira er aldrei í leiðinlegum bardögum og Lamas er einn af þeim bestu í fjaðurvigtinni. Þá mætir Sam Alvey hinum umdeilda Alex Nicholson og getur Alveg vel slegið frá sér. Þá verður gaman að sjá hvort að Chris Avila muni eiga jafn skelfilega frammistöðu og síðast þegar hann mætti Artem Lobov. Avila æfir með Diaz bræðrunum en hann mætir Enrique Barzola í fyrsta bardaga kvöldsins.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 22:30 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 2 en alla bardaga kvöldsins má sjá á Fight Pass rás UFC.

spot_img
spot_img
spot_img
Guttormur Árni Ársælsson
Guttormur Árni Ársælsson
-Pistlahöfundur -Fjólublátt belti í BJJ -Lýsi UFC á Viaplay þegar Pétur hefur eitthvað merkilegra að gera
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular