UFC er með lítið bardagakvöld á morgun í Nashville en þar eru þó nokkrir skemmtilegir bardagar. Í aðalbardaganum mætast þeir Glover Teixeira og Ovince St. Preux en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á UFC annað kvöld.
- Kemur OSP með ferskan blæ í léttþungavigtina? Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Glover Teixeira og Ovince St. Preux (OSP). OSP hefur unnið sex af sjö bardögum sínum í UFC og klárað marga af þeim með miklum tilþrifum. Hann fær erfiða prófraun gegn Teixeira (#4) annað kvöld en Teixeira hefur tapað tveimur bardögum í röð. Takist OSP að sigra kemst hann inn á topp fimm í léttþungavigtinni í fyrsta sinn á ferlinum og gæti komið með ferskan blæ inn í staðnaða léttþungavigtina.
- Tveir á uppleið: Einn mikilvægasti bardagi kvöldsins fer fram í léttvigtinni þar sem þeir Beneil Dariush og Micheal Johnson mætast. Báðir hafa þeir verið á mikilli siglingu undanfarið og sigrað fjóra bardaga í röð. Sigurvegarinn á morgun mun vera einu skrefi nær titilbardaga. Micheal Johnson kom í UFC í gegnum TUF þar sem var fátt sem benti til þess að hann ætti eftir að verða topp fimm léttvigtarmaður. Hann hefur þó sýnt stöðugar framfarir og er ekki sá einhæfi glímumaður sem hann var eitt sinn. Á sama tíma hefur Beneil Dariush tekið stórtækum framförum standandi undir handleiðslu Rafael Cordeiro eftir tap gegn Ramsey Nijem. Viðureign þeirra verður svo sannarlega spennandi.
- Smile’n Sam Alvey: Millivigtarmaðurinn Sam Alvey hefur verið á miklu skriði og sigrað þrjá bardaga í röð – allt rothögg í fyrstu lotu. Hann mætir Derek Brunson á morgun en Alvey hefur vakið athygli fyrir einstaklega skemmtilegan persónuleika og er ávallt brosandi enda er hann ekki kallaðir Smile’n Sam Alvey að ástæðulausu. Brunson er talinn mun sigurstranglegri hjá veðbönkunum og því gæti Alvey verið góður kostur fyrir þá sem vilja leggja undir. Brunson er þó sterkur glímumaður sem mun leitast við að taka Alvey niður.
- Þrír efnilegir í fluguvigtinni: Hinn 22 ára Ray Borg mætir Geane Herrera en Borg hefur sigrað síðustu tvo bardaga sína og fengið frammistöðubónusa í þeim báðum. Hinir tveir, Dustin Ortiz og Willie Gates, berjast snemma um kvöldið en Ortiz og Gates eru líkt og Borg efnilegir og skemmtilegir fluguvigtarmenn sem bardagaaðdáendur ættu að fylgjast vel með.
- Aðrir bardagar: Uriah Hall mætir nýliðanum Oluwale Bamgbose á morgun. Hall hefur ekki staðist væntingar aðdáenda í UFC eftir að hann kom úr TUF en ætti að sigra Bamgbose á morgun. Það er þó ekki hægt að ganga að neinu vísu með Hall. Ein af þeim betri í bantamvigt kvenna, Sara McMann, mætir Amanda Nunes á morgun. McMann hlaut silfurverðlaun á Ólympíuleikunum 2004 í frjálsri glímu og tapaði fyrir Rondu Rousey í fyrra. Nunes hefur sigrað þrjá bardaga í UFC, alla með tæknilegu rothöggi. Viðureign þeirra ætti að verða fínasta skemmtun.
Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 22:30 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 2 aðfaranótt sunnudags. Áskrifendur Fight Pass geta séð alla bardaga kvöldsins á Fight Pass rás UFC.