Wednesday, April 24, 2024
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC on Fox 24

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC on Fox 24

Í kvöld fer fram ansi skemmtilegt UFC bardagakvöld í Kansas. Demetrious Johnson freistar þess að jafna met Anderson Silva, geggjaður kvennabardagi fer fram og margt fleira áhugavert  er til staðar á þessu kvöldi en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á þetta.

  • Jafnar Demetrious Johnson metið? Fluguvigtarmeistarinn Demetrious Johnson getur jafnað met Anderson Silva yfir flestar titilvarnir í UFC takist honum að sigra Wilson Reis. Johnson er nánast fullkominn bardagamaður og gerir afar sjaldan mistök. Jafnar hann metið í kvöld?
  • Borgar fjárfesting UFC sig? Í næstsíðasta bardaga kvöldsins mætast þær Michelle ‘The Karate Hottie’ Waterson og Rose Namajunas. UFC hefur verið að markaðssetja Waterson mikið á undanförnum mánuðum og lagt mikið í að kynna hana. Það er í þeirra hag að hún vinni Namajunas og fái þar af leiðandi titilbardaga í strávigt kvenna. Namajunas er þó sigurstranglegri samkvæmt veðbönkum og ætti þetta að verða hörku bardagi.
  • Er Robert Whittaker tilbúinn í þá bestu? Robert Whittaker mætir einum besta gólfglímumanni sögunnar, Ronaldo ‘Jacare’ Souza, í kvöld. Whittaker hefur unnið sex bardaga í röð í UFC en fær hér sína erfiðustu prófraun. Jacare vill eflaust fagna nýjum samningi með sannfærandi sigri og Whittaker ætlar að nýta sér tækifærið og komast nær þeim bestu með sigri á Jacare. Þetta er einn besti bardagi kvöldsins.
  • Framtíðarstjarna í bantamvigtinni? Tom Duquesnoy samdi við UFC fyrr á árinu og berst sinn fyrsta bardaga í UFC í kvöld. Duquesnoy er gríðarlega skemmtilegur franskur bardagamaður sem æfir hjá Jackson/Winkeljohn. Duquesnoy var bæði bantam- og fjaðurvigtarmeistari BAMMA í Bretlandi og ríkir mikil spenna fyrir frumraun hans í UFC.
  • Rotarinn með stóru bumbuna: Roy Nelson náði sínu fyrsta rothöggi í tvo ár í september í fyrra og var það eflaust kærkomið eftir slapt gengi undanfarið. Hann mætir nú fyrrum þungavigtarmeistara Bellator, Alexander Volkov, og gæti það orðið skemmtileg viðureign.
  • Léttvigtin stendur alltaf fyrir sínu: Bobby Green berst ekki oft en það er alltaf áhugavert að sjá hann berjast.  Green hefur tapað tveimur bardögum í röð og mætir nú Rashid Magomedov sem er 4-1 í UFC. Þetta gæti orðið mjög skemmtilegur bardagi.
  • Ekki gleyma: Aljamain Sterling mætir Augusto Mendes í áhugaverðum bardaga í bantamvigt. Sterling þarf að vinna enda tapað tveimur bardögum í röð en hann þarf að rífa sig í gang eftir að hafa verið spáð sem mögulegum framtíðarmeistara. Augusto ‘Tanquinho’ Mendes er heimsmeistari í brasilísku jiu-jitsu og leit virkilega vel út í sínum síðasta bardaga en hér mætast tveir ólíkir stílar. Gamall andstæðingur Gunnars Nelson, Zak Cummings, mætir Nathan Coy í öðrum bardaga kvöldsins. Þá má ekki gleyma þeim Tim Elliot og Louis Smolka sem mætast í skemmtilegum fluguvigtarslag.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 20 í kvöld en aðalhluti bardagakvöldsins hefst á miðnætti og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular