Fyrsta bardagakvöld helgarinnar er af minni gerðinni en það verða engu að síður nokkrir mjög spennandi bardagar þetta kvöld. Förum yfir það helsta.
Innkoma Justin Gaethje
Annað slagið koma inn spennandi meistarar úr öðrum samböndum eins og Eddie Alvarez og Gilbert Melendez. Justin Gaethje er sá nýjasti en hann var WSOF meistarinn í léttvigt og varði titil sinn fimm sinnum. Gaethje er ósigraður eftir 17 bardaga, 28 ára gamall, kjaftfor og þekktur fyrir gríðarlega árásargirni. Oftast er þessum aðilum hent beint fyrir úlfana og það er einmitt það sem gerist hér. Andstæðingur Gaethje er Michael Johnson, skráður númer fimm á styrkleikalista UFC. Johnson er með mikla reynslu gegn þeim allra bestu svo þessi bardagi verður góð mælistika fyrir Gaethje.
Framtíðar stjarna
Markc Diakiese er einn efnilegasti nýliðinn í UF og, ósigraður í 12 bardögum. Hann er litríkur persónuleiki og hefur unnið fyrstu þrjá bardaga sína í UFC sannfærandi. Þessi strákur gæti orðið stór stjarna með þessu áframhaldi. Til að gera þetta meira spennandi er andstæðingurinn líka ósigraður. Drakkar Klose er 29 ára amerískur bardagamaður, þekktur fyrir höggþyngd en hann hefur rotað andstæðinginn í fjórum af sjö sigrum.
Mikilvægir bardagar í strávigt kvenna
Tveir bardagar fara fram í strávigt kvenna þetta kvöld. Fyrst mætir Tecia Torres, fimmta á styrkleikalista UFC, Juliana Lima. Lima er ekki á styrkleikalista UFC og þessi bardagi sá fyrsti þetta kvöld. Torres mun alveg örugglega vera hálf móðguð vegna þessa og gera sitt besta til að valta yfir Lima. Síðar um kvöldið berst svo Angela Hill gegn Ashley Yoder. Hill leit frábærlega út þrátt fyrir tap gegn Jéssica Andrade í hennar síðasta bardaga svo það verður gaman að sjá hana aftur. Ekki ólíklegt að Hill muni blanda sér í toppbaráttuna á næstu misserum.
Redemption
Þetta kvöld mun krýna enn einn sigurvegarann í The Ultimate Fighter þáttunum. Það skemmtilega við þessa seríu er að þátttakendur eru allir með mikla reynslu og hafa í mörgum tilvikum barist í UFC. Úrslitabardaginn í kvöld verður á milli Dhiego Lima og Jesse Taylor. Bardaginn er sérstaklega áhugaverður af því að Taylor var kominn í úrslitabardagann í sjöundu seríu en var rekinn eftir fíflaskap. Takist honum að sigra verður það sannkallað endurlausn níu árum síðar.
Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 22 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 1. Allir bardagarnir verða sýndir á Fight Pass rás UFC.