spot_img
Thursday, December 19, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNýr meistari: Dominick Cruz

Nýr meistari: Dominick Cruz

Dominick Cruz

Í hvert sinn sem UFC titill skiptir um hendur ætla MMA Fréttir að kynna nýjan meistara til leiks líkt og gert var í nóvember þegar Holly Holm hrifsaði titilinn eftirminnilega af Rondu Rousey.

Dominick Cruz kom til baka um helgina eftir langa fjarveru og sigraði T.J. Dillashaw eftir klofinn úrskurð dómaranna en farið var yfir kvöldið í umfjöllun okkar í gær. Það er þó varla hægt að tala um nýjan meistara þar sem Dominick Cruz tapaði aldrei titlinum í búrinu. Við skulum renna yfir sögu þessa frábæra íþróttamanns.

Dominick Cruz á ættir að rekja til Mexíkó sem skýrir eftirnafnið. Hann var fæddur og alinn upp af einstæðri móður sinni í Arizona fylki í Bandaríkjunum en foreldrar hans höfðu skilið þegar hann var fimm ára gamall. Upphaflega stefndi hann á að stunda knattspyrnu en fór þess í stað að æfa ólympíska glímu. Þegar Cruz var á leið á sína fyrstu fótboltaæfingu villtist hann inn í glímusalinn. Þar mætti honum glímuþjálfari sem sagði honum að nú væri hann glímumaður. Cruz fór því aldrei í boltann eins og hann ætlaði.

Cruz virðist mjög agaður einstaklingur svo það kemur kannski á óvart að heyra að hann var í mikilli óreglu í menntaskóla. Vandamál sem tengdust drykkju og slagsmálum urðu til þess að móðir hans henti honum út. Það var ekki fyrr en eftir menntaskóla sem Dominick tók sig á og hóf að stunda hinar ýmsu bardagaíþróttir. Hann hefði sennilega glímt í háskóla hefði slitið liðband í ökkla ekki sett strik í reikninginn. Það má kannski gera ráð fyrir að djammið hafi haft meiri forgang en glíman á háskólaárunum enda hefur Cruz yfirstigið verri meiðsli en slitið liðband.

faber and Dominick Cruz

Eftir menntaskóla vann Cruz fyrir sér sem þjónustufulltrúi og þjálfaði glímu á hliðarlínunni. Hann tók stefnuna á að verða slökkviliðsmaður áður en ákvörðunin var tekin að gerast atvinnubardagamaður.

Fyrsti MMA bardagi Cruz fór fram í janúar árið 2005. Hann sigraði Eddie Castro á stigum og sigraði í kjölfarið fjóra aðra andstæðinga þetta sama ár. Árið 2006 barðist hann fjórum sinnum, sigraði alla og fékk í kjölfarið boð um keppa í stóru sambandi sem kallaðist WEC.

Dominick Cruz var hent beint í djúpu laugina í WEC. Hans fyrsti bardagi var titilbardagi í fjaðurvigt gegn Urijah Faber sem hafði unnið titilinn árið áður. Cruz var greinilega ekki tilbúinn í bardaga af þessari stærðargráðu og tapaði í fyrstu lotu á „guillotine” hengingu. Það tap er enn þann dag í dag hans eina tap á ferlinum.

faber Dominick Cruz

Fram að tapinu gegn Faber hafði Cruz ekki haft neinn þjálfara. Cruz æfði hér og þar með nokkrum æfingafélögum en var ekki í neinu sérstökum MMA klúbbi. Eric Del Fierro, yfirþjálfari Alliance MMA, sá eitthvað í Cruz og bauð honum að koma og æfa hjá þeim. Að sögn Del Fierro kunni Cruz ekki að sparka og var mjög hrár en einstaklega harður af sér.

Eftir tapið gegn Faber létti Dominick Cruz sig niður í bantamvigt og hóf að bæta sig hratt. Eftir sigur á fimm andstæðingum, þar með talið Ian McCall og Joseph Benavidez, fékk Cruz tækifæri til að berjast um WEC titilinn í bantamvigt. Þáverandi meistari var Brian Bowles sem hafði náð titlinum af Miguel Torres árið áður. Bardaginn var vonbrigði fyrir áhorfendur þar sem Bowles þurfti að hætta keppni eftir tvær lotur með brotna hendi en Cruz var orðinn meistarinn. Cruz varði svo titilinn í tvígang áður en WEC var sameinað inn í UFC.

Dominick Cruz

Við sameiningu varð Dominick Cruz fyrsti UFC meistarinn í bantamvigt og hans fyrsta verkefni var enginn annar en Urijah Faber á UFC 132. Eftir fimm frábærar lotur stóð Cruz uppi sem óumdeildur sigurvegari og hafði í hans huga þurrkað út eina tapið á ferlinum. Í október á sama ári varði Cruz beltið á móti Demetrious Johnson sem þá keppti í bantamvigt enda var fluguvigtin ekki til á þeim tíma. Cruz gjörsigraði Johnson á stigum en sá sigur lítur sérstaklega vel út nú í ljósi afreka Johnson sem UFC meistari í fluguvigt.

Dominick Cruz

Saga Cruz eftir árið 2011 er flestum MMA aðdáendum vel kunn. Hann lenti í ítrekuðum meiðslum sem héldu honum frá keppni árum saman. Hann fann annan feril í fréttateymi FOX Sports sem sérfræðingur og stendur sig alltaf frábærlega á þeim vígvelli. Sigur hans um helgina gegn T.J. Dillashaw er ein ótrúlegasta endurkoma í sögu íþróttarinnar. Dominick Cruz er oftast þekktur fyrir mikinn hreifanleika og ótrúlega vörn en hans besti eiginleiki er sennilega óbilandi sjálfstrú. Það verður gaman að fylgjast með næstu skrefum hjá meistaranum en ekki má gleyma að Cruz er aðeins 30 ára gamall og á því nóg eftir.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular