Samkvæmt nýjustu orðrómunum munu þeir Rafael dos Anjos og Colby Covington berjast um bráðabirgðartitilinn í veltivigtinni. Bardaginn á að fara fram á UFC 224 í Brasilíu þann 12. maí.
UFC hefur ekki staðfest bardagann en fjölmargir áreiðanlegir fréttamenn hafa greint frá bardaganum. Veltivigtarmeistarinn Tyron Woodley fór undir hnífinn í byrjun árs og hefur sagt að hann yrði ekki tilbúinn til að snúa aftur í búrið fyrr en í júlí. Woodley hefur ekki barist síðan hann sigraði Demian Maia í júlí í fyrra.
Þrátt fyrir að stutt sé í endurkomu meistarans virðist UFC hafa ákveðið að skella saman enn einu bráðabirgðarbeltinu. Rafael dos Anjos hefur unnið alla þrjá bardaga sína síðan hann fór upp í veltivigt. Þessi fyrrum léttvigtarmeistari sigraði Robbie Lawler nú síðast í desember. Colby Covington hefur ekkert barist síðan hann sigraði Demian Maia í október. Sigurinn markaði fimmta sigur Covington í röð í veltivigt UFC.
Nokkur stífla hefur verið í veltivigtinni undanfarið en sem stendur er aðeins einn bardagamaður á topp 15 styrkleikalistanum með staðfestan bardaga. Það gæti breyst á næstu dögum og vonandi fær Gunnar Nelson bardaga á næstu dögum.
UFC, Covington eða dos Anjos hafa ekki staðfest bardagann svo enn er aðeins um orðróm að ræða.