0

Orðrómur: Rafael dos Anjos og Colby Covington berjast um bráðabirgðartitil í Brasilíu

Samkvæmt nýjustu orðrómunum munu þeir Rafael dos Anjos og Colby Covington berjast um bráðabirgðartitilinn í veltivigtinni. Bardaginn á að fara fram á UFC 224 í Brasilíu þann 12. maí.

UFC hefur ekki staðfest bardagann en fjölmargir áreiðanlegir fréttamenn hafa greint frá bardaganum. Veltivigtarmeistarinn Tyron Woodley fór undir hnífinn í byrjun árs og hefur sagt að hann yrði ekki tilbúinn til að snúa aftur í búrið fyrr en í júlí. Woodley hefur ekki barist síðan hann sigraði Demian Maia í júlí í fyrra.

Þrátt fyrir að stutt sé í endurkomu meistarans virðist UFC hafa ákveðið að skella saman enn einu bráðabirgðarbeltinu. Rafael dos Anjos hefur unnið alla þrjá bardaga sína síðan hann fór upp í veltivigt. Þessi fyrrum léttvigtarmeistari sigraði Robbie Lawler nú síðast í desember. Colby Covington hefur ekkert barist síðan hann sigraði Demian Maia í október. Sigurinn markaði fimmta sigur Covington í röð í veltivigt UFC.

Nokkur stífla hefur verið í veltivigtinni undanfarið en sem stendur er aðeins einn bardagamaður á topp 15 styrkleikalistanum með staðfestan bardaga. Það gæti breyst á næstu dögum og vonandi fær Gunnar Nelson bardaga á næstu dögum.

UFC, Covington eða dos Anjos hafa ekki staðfest bardagann svo enn er aðeins um orðróm að ræða.

Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.